Útrásarvíkingar í Húsinu

Fjórir rithöfundar lesa úr verkum sínum í stásstofu Hússins á Eyrarbakka í dag, sunnudaginn 5. des., kl. 16.

Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir les úr glæpasögu sinni Mörg eru ljónsins höfuð sem sækir efniviðinn í forna tíma. Sagan hefur hlotið mikið lof. Ófeigur Sigurðsson les úr bók sinni sem ber þennan skemmtilega langa titil Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undibjó komu hennar & nýrra tíma. Þarna er það eldklerkurinn Jón Steingrímsson sem er í aðalhlutverki.

Einnig les Lára Björg Björnsdóttir, þekktur pistlahöfundur, úr bók sinni Takk útrásarvíkingar. Ekkert var síðan meira viðeigandi í Árborg en að fá ungskáldið Gunnar Eggertsson til að lesa úr bók sinni Köttum til varnar.

Upplestur hefst kl. 16:00 en jólasýningi Byggðasafnsins opnar kl. 13:00. Kaffiveitingar eru í boði Hússins.