Útgáfutónleikar Englajóla í dag

Útgáfutónleikar Englajóla verða haldnir í Salnum í Kópavogi í dag, sunnudaginn 2. desember kl. 13.

Þetta hugljúfa tónlistarævintýri Elínar Gunnlaugsdóttur, tónskálds á Selfossi, var frumflutt árið 2010 en kemur nú út á geiskadiski með listrænum myndum Elide Gramegna og Önnu Fríðu Giudice.

Tónlistarævintýrið Englajól byggir á samnefndri sögu eftir Guðrúnu Helgadóttur. Englarnir skreyta himnana og halda heilög jól fyrir fátæk börn veraldarinnar. Sagan minnir okkur á friðar og kærleiksboðskap jólanna.

Það er leikarinn Sigurþór Heimisson sem les, en um tónlistarflutning sjá Shehrézade-hópurinn, félagar úr Kársneskórnum og Unglingakór Selfosskirkju. Þá munu nemendur úr Listdansskóla Íslands dansa við valda kafla. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson.

Útgáfan er samstarfsverkefni tónleikaraðarinnar Töfrahurðar og Bókaútgáfunnar Sæmundar.