Útgáfutónleikar Englajóla í dag

Útgáfutónleikar Englajóla verða haldnir í Salnum í Kópavogi í dag, sunnudaginn 2. desember kl. 13.

Þetta hugljúfa tónlistarævintýri Elínar Gunnlaugsdóttur, tónskálds á Selfossi, var frumflutt árið 2010 en kemur nú út á geiskadiski með listrænum myndum Elide Gramegna og Önnu Fríðu Giudice.

Tónlistarævintýrið Englajól byggir á samnefndri sögu eftir Guðrúnu Helgadóttur. Englarnir skreyta himnana og halda heilög jól fyrir fátæk börn veraldarinnar. Sagan minnir okkur á friðar og kærleiksboðskap jólanna.

Það er leikarinn Sigurþór Heimisson sem les, en um tónlistarflutning sjá Shehrézade-hópurinn, félagar úr Kársneskórnum og Unglingakór Selfosskirkju. Þá munu nemendur úr Listdansskóla Íslands dansa við valda kafla. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson.

Útgáfan er samstarfsverkefni tónleikaraðarinnar Töfrahurðar og Bókaútgáfunnar Sæmundar.

Fyrri greinÆtlar að þrauka veturinn
Næsta greinKynning á Njálubók Bjarna