Útgáfuteiti: Hermann Árnason ríður í strauminn

Næstkomandi fimmtudag kl. 17-19, verður haldið útgáfuteiti í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli í tilefni af útkomu bókarinnar Með frelsi í faxins hvin – riðið í strauminn með Hermanni Árnasyni, sem Hjalti Jón Sveinsson hefur skráð.

Hermann hefur stundað hestamennsku frá blautu barnsbeini. Tamning hrossa og hestaferðir hafa verið hugsjón hans alla tíð og sumt af því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur er með ólíkindum, eins og Vatnareiðin, þegar hann reið ásamt félögum sínum, yfir allar ár sem á vegi þeirra urðu frá Höfn í Hornafirði og vestur fyrir Hvítá í Árnessýslu. Að sjálfsögðu er sagt frá því ferðalagi í bókinni. Einnig er fjallað um Stjörnureiðina svokölluðu, sem Hermann skipti í tvo 40 daga leiðangra, árin 2016 og 2018, og reið þá þvers og kruss yfir landið, á þann hátt að ferðirnar mynduðu orðið stjörnu þegar hann fór af hestbaki í lok hennar. Þá segir frá Flosareiðinni þegar Hermann og tveir félagar hans riðu í spor Flosa í því skyni að sannreyna frásögn Njálssögu.

Í bókinni er jafnframt fjallað um þá hlið hestamennsku Hermanns sem lýtur að uppeldi hesta og þjálfun þeirra, umgengni hans við þau og hvers konar meðhöndlun.

Ríflega 300 ljósmyndir prýða bókina, auk sérútbúinna korta af helstu leiðunum sem sagt er frá.

Að sjálfsögðu eru allir velkomnir á fyrrnefnt útgáfuteiti til að fagna útkomu bókarinnar með Hermanni og Hjalta Jóni og öðrum þeim sem að henni komu. Þar verða léttar veitingar í boði og bókin verður þar fáanleg á tilboðsverði, kr. 7.000-.

Það er kannski rétt að taka það fram, svona meira í gríni en alvöru, að ekki er ætlast til þess að gestir komi á hestum í útgáfuteitið, þótt auðvitað væri það vel við hæfi!

Fyrri grein„Hér er einhver sem veit eitthvað“
Næsta greinSunnlensku liðin öll á útivöll