Útgáfuhóf í Skálholti – Elín syngur

Bjarni Harðarson mun lesa úr bókinni í útgáfuhófinu.

Bókaútgáfan Sæmundur boðar til útgáfuhófs í Skálholtsskóla laugardaginn 6. október klukkan 16 í tilefni af útgáfu bókarinnar „Í Gullhreppum“ eftir Bjarna Harðarson.

Elín Gunnlaugsdóttir, bóksali og tónskáld, syngur nokkur þjóðlög við gamlar vísur um enn eldri tíma. Höfundur les úr bókinni. Kaffi og kleinur í boði útgefanda.

Í Gullhreppum segir frá þjóðsagnapersónunni séra Þórði í Reykjadal og hinu mikla veldi Skálholtsstaðar á 18. öld.

Sagan hefst í Kaupmannahöfn þar sem prestsefnið kemst í kærleika við okurlánara og verður síðar valdur að dauða hans. Þegar heim er komið opnar Reykjadalsprestur hús sín fyrir farandi lýð flækinga og nýtur góðs af á engjaslætti. Hann er sjálfur frábitinn allri vinnu en skoðar veröldina með kátlegu kæruleysi þess sem lætur hverjum degi nægja sína þjáningu.

Inni fyrir berst Þórður við trúarlegar efasemdir og forboðnar kenndir sínar til karlmanna. Í kararlegu sinni í Skálholti dreymir hann um að sjá Skálholtsstað í logum en hefur hvorki vilja né nennu til að kveikja þá elda.

Heimur samkynhneigðra, saumakerlingar drottningar, dreissugir skólapiltar, iðrandi syndarar og göldróttur staðarsmiður spila saman í lifandi og skemmtilegri frásögn. Íslandssagan og þjóð hennar birtist okkur með kröm sinni og skemmtan.

Í Gullhreppum er sjálfstætt framhald bókarinnar Í skugga drottins sem hlaut afburða viðtökur lesenda.

Fyrri greinStarfsleyfi framlengt þrátt fyrir kvartanir íbúa og sveitarfélagsins
Næsta greinSindra boðið til keppni á Ítalíu