Úr ríki Kallíópu

Skálholt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

UPPFÆRT 18.9.2020: Viðburðinum hefur verið frestað vegna COVID-19.

– – –

Sunnudaginn 20. september næstkomandi verður haldin menningardagskrá í Skálholti undir yfirskriftinni Úr ríki Kallíópu.

Viðburðurinn er haldinn til minningar um Sigurð Pétursson, lektor í latínu og grísku, sem lést í janúar á þessu ári.

Dagskráin er tvíþætt; málþing kl. 13:00 og tónleikar kl. 17:00. Á málþinginu munu nokkrir vinir Sigurðar halda fræðileg erindi um húmanísk málefni, einkum sögu, latínubókmenntir og heimspeki. Auk þess mun Vilborg Auður Ísleifsdóttir, sagnfræðingur, minnast Sigurðar, en þau Vilborg voru vinir frá því í menntaskóla.

Á tónleikunum mun Skálholtskórinn ásamt átta einsöngvurum flytja nokkur tónverk. Á dagskránni er m.a. frumflutningur tónverksins Calliopes Respublica eftir Báru Grímsdóttur, samið við latínukvæði eftir Jón Vídalín Skálholtsbiskup, en 300. ártíð Jóns Vídalíns var nú í lok ágúst.

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn. Fésbókarviðburðinn er hér, en þar má finna nánari upplýsingar um dagskrána.

Fyrri greinSamið um tilraunaverkefni í úrgangsmálum við Skaftárhrepp
Næsta greinNý verslun Rekstrarlands opnar á Selfossi