Uppsveitastjarnan í uppsiglingu

Hvar liggja þínir hæfileikar? Ert þú snillingur í að herma eftir, blaka eyrunum, fara heljarstökk afturábak, töfra kanínur upp úr hatti, dansa, syngja, spila á hljóðfæri, gretta þig ógurlega, halda mörgum boltum á lofti eða prjóna ótrúlega hratt?

Þetta eru einungis örfá handahófskennd dæmi um atriði sem upplagt væri að æfa fyrir hæfileikakeppni uppsveitanna sem nú er í undirbúningi hjá Uppliti, menningarklasa uppsveita Árnessýslu.

Fyrsta forkeppnin verður í Félagsheimilinu Borg í Grímsnesi laugardaginn 20. október kl. 15-17 – og er skráning að hefjast þessa dagana. Allir geta tekið þátt; ungir jafnt sem aldnir, skólar og vinnustaðir, einstaklingar og hópar – jafnvel heilu fjölskyldurnar. Fyrirhugaðar eru þrjár forkeppnir og að lokum úrslitakeppni, allar haldnar í félagsheimilum í uppsveitunum á tímabilinu frá október nk. fram í febrúar. Dómnefnd skipuð nokkrum valinkunnum einstaklingum velur bestu atriðin í hverri forkeppni, sem síðan munu etja kappi í úrslitakeppninni.

Hámarkslengd atriða er 5 mínútur – en þau mega líka gjarnan vera styttri. Frumleiki, skemmtun og sköpunargleði vega þungt þegar kemur að því að velja atriði sem komast áfram í úrslitakeppnina.

Fyrirkomulag keppninnar verður kynnt nánar þegar nær dregur – en hæfileikaríkum uppsveitungum er alveg óhætt að byrja að undirbúa krassandi og skemmtileg atriði!

Tekið er við skráningum og fyrirspurnum svarað á upplit@upplit.is. Einnig má nálgast nánari upplýsingar um keppnina á vefnum www.upplit.is.

Hæfileikakeppnin er haldin með styrk frá Menningarráði Suðurlands.

Fyrri greinFlest lón komin á yfirfall
Næsta greinGolfhönskum, bjór og sjónvarpi stolið