Næstkomandi laugardag, þann 20. maí, fer fram uppskeruhátíð Smiðjuþráða á Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Smiðjuþræðir er verkefni á vegum Listasafns Árnesinga sem hefur staðið yfir síðastliðið skólaár og snýst um það að keyra út seríu af fjölbreyttum og færanlegum listasmiðjum sem starfandi listamenn úr ólíkum listgreinum leiðbeina, til allra skóla í Árnessýslu.
„Við viljum ljúka verkefninu með því að sýna listaverk barnanna sem tóku þátt í Smiðjuþráðum. Við viljum gera börnunum hátt undir höfði, sýna afrakstur vinnu þeirra og gera barnamenningu sýnilegri í Árnessýslu,“ segir Alda Rose Cartwright, verkefnastjóri fræðslu á Listasafni Árnesinga.
Smiðjurnar voru af ýmsum toga m.a. stop motion með Thomasine Giesecke frá D´Orsay safninu í París, uppnýtt hönnun með Myrru Þrastardóttur, textílsmiðja með Ástu Guðmundsdóttur listamanni, langspilsmiðja með Eyjólfi Eyjólfssyni tónlistarmanni, bókverkasmiðja með Lóu Hjálmtýsdóttur og arabísk skrift og kynning á menningarheimi Líbanon með Yara Zein.
„Þessir frábæru listamenn fóru í skólana og leiddu þessar smiðjur, skólarnir hafa tekið vel á móti þeim og verið í frábæru samstarfi við Listasafnið. Það hefur verið gleðilegt að vera í samstarfi við skólana og við erum afar þakklát kennurum og skólastjórnendum fyrir góðar móttökur og að skólarnir sjái verðmæti þess að taka á móti þessu verkefni,“ segir Alda ennfremur.
„Einnig viljum við þakka þessum frábæru listamönnum fyrir samstarfið og þessari einstöku gjöf þeirra til samfélagsins. Smiðjurnar hafa einnig farið fram á safninu fyrir almenning og hefur það líka gengið mjög vel. Markmiðið er að efla tengsl safnsins við nærsamfélagið og veita börnum og unglingum í sýslunni tækifæri á að taka þátt í fjölbreyttu menningarstarfi á óháð búsetu.”
Uppskeruhátíð Smiðjuþráða fer fram 20. maí kl. 14 til 17 og mun Gunnar Helgason lesa uppúr bókum sínum, Vigdís Hafliðadóttir úr hljómsveitinni Flott mun taka nokkur lög og ýmsar listasmiðjur verða í boði á safninu fyrir börn og fjölskyldur að taka þátt. Það verða ýmsar veitingar í boði fyrir gesti m.a. frá Kjörís. Viðburðurinn er opinn öllum.
„Komið og fagnið með okkur barnamenningu á hátíð barnanna á laugardaginn og gerum daginn eftirminnilegan, allir innilega velkomnir,“ segir Alda að lokum.
Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði og Uppbyggingasjóði Suðurlands.