Upprisa holdsins og eilíft víf í Eyvindartungu

Eyvindartunga við Laugarvatn býður upp á páskaeggjandi viðburð næstkomandi laugardagskvöld, burlesque- og kabarettsýningu í sem nefnist Upprisa holdsins og eilíf víf.

Það verður drag, burlesque, sirkus, sverðgleypingar, hnífakast, sungið um veiði, húllað, hlegið, gantast og sitthvað fleira. Þetta er einstakt tækifæri til að sjá kabarett í Bláskógabyggð.

„Margur dvelur í Bláskógabyggð um helgar og leitar eftir afþreyingu á svæðinu. Við sjáum tækifæri í því að bjóða fólki á viðburði og kynnast Eyvindartungu,“ segir Stephanie Langridge, viðburðastjóri og tengdadóttir í Eyvindartungu.

Burlesque-drottning Íslands, Margrét Erla Maack heldur utan um sýninguna og auk hennar kemur fram rjóminn af fullorðinsskemmtikrftum landsins. Húlla- og dansmæri Bobbie Michelle mun vefja áhorfendum og húllahringjum um fingur sér og fleiri líkamsparta. Drag- og boylesque-undrið Gógó Starr mun trylla lýðinn. Sirkusfolinn Tomtastic leikur á alls oddi og kemur öllum úr jafnvægi nema sjálfum sér. Kabarettan Bibi Bioux heillar áhorfendur með einstakri kímni og söngrödd. Margrét sjálf mun svo sýna sín vinsælustu atriði en þarna er hún nýkomin heim frá sýningarferðalagi til New York.

Sýningin er fyrir fullorðna, er ekki við hæfi barna og ekki við hæfi þeirra sem óttast undur mannslíkamans.

Hlaðan í Eyvindartungu er fjölskyldurekið viðburðarými sem samanstendur af gömlu útihúsinum á bæjarhlaðinu sem voru endurnýjuð árið 2020 og hefur verið vettvangur fyrir brúðkaup, veislur, tónleikar og aðra viðburði. Eyvindartunga mun fljótlega kynna tónleikaröð sumarsins. Er hlotið hefur nafnið Kvöldið er Fagurt, líkt og
þjóðlagið alþekkta eftir Ingólf Þorsteinsson sem fæddist í Eyvindartungu árið 1901.

Miðasalan fyrir kabarettinn er á tix.is og kostar miðinn aðeins 3.900 krónur í forsölu þar, en 4.900 við hurðina. Að sjálfsögðu verður hægt að kaupa brjóstadúska á sýningunni til að fara heim og vera með sína eigin sýningu eftir innblástur kvöldsins.

Fyrri greinMjótt á mununum fyrir lokakvöldið
Næsta greinÖllum tilboðum í Hamarshöllina hafnað