Upplestur skálda og bókauppboð

Bókamarkaður Bókabæjanna austanfjalls hefur staðið með miklum blóma í Leikhúsinu í Hveragerði um helgar í sumar og markaðnum lýkur með glæsibrag nú um helgina.

Höfuðþema síðustu helgarinnar verður „Núlifandi skáld á Suðurlandi“.

Verða bækur skáldanna áberandi síðustu markaðsdagana og efnt verður til ljóðadagskrár í Leikhúsinu laugardaginn 15. ágúst klukkan 15-16 með skáldum af svæðinu. Á sunnudeginum verður svo eldfjörugt bókauppboð klukkan 14 sem Ölfusingar stýra af röggsemi. Þar verða boðnir upp merkir bókagripir allt frá 18. öld en einnig nýlegar bækur á hóflegu verði.

Eftirtalin tíu skáld taka þátt í dagskránni á laugardag: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, Kristian Guttesen, Kristján Runólfsson, Norma E. Samúelsdóttir, Pétur Önundur Andrésson, Sigríður Jónsdóttir, SJÓN, Steinunn P. Hafstað, Þorsteinn Antonsson, Þór Stefánsson og Þórður Helgason.

Á uppboðinu verða meðal annars boðnar upp eftirsóttar og fágætar bækur eins og Saga Hraunshverfis, Einræður Steinólfs, Lúsa-Sólveig og einstök myndabók um Ólympíuleika Hitlers. En einnig algengari gripir á frábæru verði svo sem Þúsund ára sveitaþorp, Að breyta fjalli, Snaran eftir Jakobínu, Mullersæfingar og árituð ævisaga Ingólfs á Hellu og fleira og fleira. Þá eru ótaldir hinir dýru kjörgripir uppboðsins þar sem hæst ber tvö erlend átjándu aldar rit, annarsvegar Ferðabók Eggerts og Bjarna á þýsku í samtíma forlagsbandi og fágætt sagnfræðiverk um dönsku Jómfrúreyjarnar. Listi með uppboðsgripum er birtur hér að neðan.

Markaðurinn er opinn frá föstudegi til sunnudags klukkan 12 til 18. Dagskrá laugardags hefst kl. 15 og sunnudags kl. 14.

Fyrri greinAðeins einn fór til Ástralíu!
Næsta grein„Orka til framtíðar”