Upplestur og piparkökur á Listasafninu

Bókasafnið í Hveragerði og Listasafn Árnesinga viðhalda þeirri hefð að bjóða upp á lestur úr nýjum bókum í Listasafninu 1. desember með tónlistarívafi, kertaljósum og piparkökum.

Kl. 20 munu höfundar lesa úr fjórum nýjum skáldsögum sem eru Bónusstelpan eftir Rögnu Sigurðardóttur, Meistaraverkið og fleiri sögur eftir Ólaf Gunnarsson, Trúir þú á töfra? eftir Vigdísi Grímsdóttur og Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson.

Þá munu einnig Björg Einarsdóttir og Hildur Hákonardóttir lesa úr sínum köflum í bókinni Á rauðum sokkum – baráttukonur segja frá sem Olga Guðrún Árnadóttir ritstýrði.

Ungur fiðluleikari, Irena Silva Roe mun brjóta upplesturinn upp með því að leika nokkur lög á fiðlu.

Á heimasíðu listasafnsins www.listasafnarnesinga.is má finna nánari upplýsingar um bækurnar og höfunda þeirra. Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.

Fyrri greinÁ fornum slóðum og nýjum í Bókakaffinu
Næsta greinBjörgvin G: Verknámshús FSu og menntun fanga á fjárlög