Ungversk/íslensk samvinna á sumarsýningu Listasafnsins

Zsóka Leposa, sýningarstjóri og László Százados, aðstoðarsýningarstjóri. Ljósmynd/Aðsend

Sumarsýning Listasafns Árnesinga, Eruð þið ánægð ef þið megið spyrja um eitthvað?, hefur fengið góðar viðtökur frá því að hún opnaði þann 4. júní síðastliðinn.

Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var framúrstefnulistamönnum frá austantjaldsríkjunum mikið kappsmál að tengjast hinum vestræna listheimi. Á sama tíma var vettvangur íslenskrar samtíðarlistar að opnast upp, m.a. fyrir stefnum á borð við flúxus og póst-list. Það kom til vegna ört stækkandi tengslanets listamanna og gallería á borð við SÚM og listagalleríð að Suðurgötu 7. Þessi tvíhliða tilraun að auknum tengslum leiddi svo til fjörlegra samskipta og nokkurra sýninga ungverskra listamanna hér á landi.

Eggert Péturson við hlið verks síns (án titils). Ljósmynd/Aðsend

Á sýningu listasafnsins er varpað ljósi á vinnubrögð listamannanna við þessa tengslamyndun og sýningagerð á Íslandi, á tíma þar sem strangar hömlur voru til staðar á ferða- og tjáningarfrelsi í Austur-Evrópu. Samvinna íslenskra og ungverskra listamanna varð uppspretta spaugilegra viðburða sem vöktu fólk til umhugsunar á sama tíma og þeir báru tíðum vott um sjálfshæðni.

Sýningin stendur til 4. september næstkomandi.

Verk Rúríar, Balance XVI. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinMargir á hraðferð í umferðinni
Næsta greinStokkseyringar bitnir af Úlfunum