Um námsmeyjar og skólapilta á Laugarvatni

Saga skólanna á Laugarvatni og fólksins sem sótti þá er viðfangsefni viðburðar maímánaðar hjá Uppliti, sem haldinn verður á Lindinni á Laugarvatni í kvöld.

Viðburðurinn hefst kl. 20.30 en þá verður jafnframt opnuð sýningin „Gamli Húsó“, þar sem gefur að líta gamlar ljósmyndir sem varpa ljósi á sögu hússins.

Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur fjallar um viðhorf nemenda á fyrstu árum Héraðsskólans að Laugarvatni sem stofnaður var árið 1928 – og fléttar saman við sögu staðarins og skólanna sem þar spruttu upp í kjölfarið. Yfirskrift erindisins er Um námsmeyjar og skólapilta í broshýru landslagi Laugarvatns – og er ætlunin að skyggnast inn í líf nemenda af báðum kynjum sem sóttu skóla á Laugarvatni fyrir miðja tuttugustu öld, hvað þeir voru að sýsla og hugsa.