Tvö verkefni fengu menningarstyrk

Glódís Margrét Guðmundsdóttir, forsprakki Radda í Rangárþingi tók við styrknum. Ljósmynd/RY

Tvö verkefni fengu úthlutun þegar menningarstyrkur Rangárþings ytra var afhentur formlega á Hellu á 17. júní. Þetta var fyrri úthlutun af tveimur árið 2024. Alls bárust sex umsóknir í sjóðinn að upphæð tæplega 1,2 milljónir króna.

Raddir úr Rangárþingi hlutu 200 þúsund króna styrk vegna rokkveislu sem blásið verður til í íþróttahúsinu á Hellu þann 15. ágúst næstkomandi. Tónleikar á vegum Radda úr Rangárþingi hafa nú þegar sannað gildi sitt en þeir hafa verið afar vel sóttir, hlotið mikla umfjöllun víða í samfélaginu og verið lyftistöng fyrir tónlistarfólk á svæðinu.

Þá hlaut leikkonan Birta Sólveig Söring Þórisdóttir frá Selalæk 50 þúsund króna styrk vegna einleiksins „Kríukroppur“ sem settur verður upp á Hellu í ágúst næstkomandi. Verkefnið er spennandi menningarverkefni sem er líklegt til að auðga menningarlíf svæðisins. Sýningin hefur einnig sterka tengingu við svæðið og íbúa þess.

Fyrri greinÚtisögusýning um sögu Lúðrasveitar Þorlákshafnar
Næsta greinÞungt haldinn eftir eldsvoða í Hveragerði