Tvítugar Jórur halda stórtónleika

Á þessu ári eru 20 ár liðin frá stofnun Jórukórsins á Selfossi og er fyrirhugað að halda upp á afmælið með stæl. Afmælistónleikar verða haldnir þann 7. maí næstkomandi í íþróttahúsi Vallaskóla og hefjast þeir kl. 16.

Algengt er að kórar hafi þema á tónleikum og að þessu sinni er það tónlist hljómsveitarinnar ABBA, en Stefán Þorleifsson, stjórnandi kórsins hefur útsett ýmis lög ABBA fyrir kórinn í tilefni þessa.

Laufey Ósk Magnúsdóttir, formaður Jórukórsins, segir því þetta ekki verða neina venjulega kórtónleika.

„Við erum búnar að panta hljóðnema fyrir hverja konu, ljósasýningu og hljóðkerfi hjá EB kerfum. Einnig verður söngkonan Jóhanna Guðrún með okkur og sex manna hljómsveit sem mun ekkert gefa eftir,” segir hún.

Þá verður á dagskránni auk ABBA, einnig brot af því besta frá sögu kórsins.

Það má því ætla að spennandi tónleikar séu nú framundan eftir vinnusamt ár hjá kórfélögum, og vonast þær eftir því að sjá sem allra flesta koma á þennan stór viðburð.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu