„Tvíleikur“ frumsýndur á Selfossi

Sunnudaginn 17. mars frumsýnir Leikfélag Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands „Tvíleik“ í hátíðarsal skólans á Selfossi.

Sýningin samanstendur af tveimur leikverkum sem leikin eru fyrir og eftir hlé. Verkin heita Perfect, eftir Hlín Agnarsdóttur og Tjaldið, eftir Hallgrím Helgason.

Perfect gerist á hæfileikakeppni í beinni útsendingu, en Tjaldið gerist á útihátíð um miðja nótt. Verkin eru skemmtilega ólík og koma inn á málefni sem alla varðar.

Um þrjátíu manns taka þátt í sýningunni sem unnin er sem hluti af leiklistaráfanga í FSu undir stjórn Guðfinnu Gunnarsdóttur. Hljómsveitin Aragrúi sér um tónlist í sýningunni.

Í tilkynningu frá leikfélaginu segir að æfingatímabilið hafi verið mjög skemmtilegt, hópurinn unnið frábærlega saman að þessu verkefni þar sem allir leggjast á eitt við allt það sem þarf að koma sýningu sem þessari á svið.

Leikfélagið mun svo taka þátt í leiklistarhátið sem haldin verður á Stokkseyri í apríl, en hátíðin er í umsjá Þjóðleiks, verkefnis á vegum Þjóðleikhússins.

Fyrri greinSkyldusigur í Árbænum
Næsta greinHraður vöxtur aspa á Tumastöðum