Tvennir sumartónleikar í dag

Tvennir tónleikar verða á vegum Sumartónleika í Skálholtskirkju í dag. Kl. 15 syngur Kór Breiðholtskirkju og kl. 20 leikur Skálholtskvartettinn.

Kl. 15 flytur Kór Breiðholtskirkju nýtt verk eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson og mótettuna Jesu Meine Freunde eftir J.S. Bach.

Verk Hróðmars heitir Rennur upp um nótt og er tónverk við ljóð Ísaks Harðarsonar og tvo sálma Biblíunnar. Verkið er samið fyrir fyrir kór, tvo einsöngvara, orgel, hörpu, selló og kirkjuklukkur. Í verkinu gætir m.a. áhrifa frá J.S.Bach, Jón Leifs og gospeltónlist.

Á tónleikunum flytur Kór Breiðholtskirkju einnig mótettu J.S. Bachs, Jesu Meine Freude. Mótettur hans eru sex að tölu. Jesu meine Freude, sem er talin elst þeirra, samdi Bach 1723 er hann var organisti í Leipzig. Hún byggir á sálmi eftir sálmaskáldið Johann Franck. Verkið er samið fyrir fimm radda kór, tvær sópranraddir, alt, tenór og bassa. Auk texta sálmsins notar Bach hluta af Rómverjabréfi Páls postula, þar sem segir frá því að trúin á Jesú Krist leysi okkur frá synd og dauða.

Í kvöld kl. 20 flytur Skálholtskvartettinn strengjakvartetta op. 76 nr. 4 og 5 eftir Joseph Haydn. Sex kvartettar Josephs Haydn, ópus 76, eru síðustu kvartettarnir sem hann skrifaði saman í flokki, eins og hefð var fyrir á þeim tíma (1797). Beethoven skrifaði rétt eftir það það sex kvartetta sína (ópus 18, 1801) og Mozart hafði einnig skrifað sex kvartetta (ópus 10, 1785), sem hann tileinkaði Haydn.

Þessir þrír klassísku meistarar gáfu þó kvartettum sínum mjög ólíkt yfirbragð, þótt þeir væru samdir í hóp. Þetta er ólíkt því sem Haydn gerði ungur (ópus 9. 17 og 33), en þar bera kvartettarnir í hverjum flokki sama yfirbragð.

Fyrri greinEldmessuganga í dag
Næsta greinJafnt hjá Ægi – Hamar tapaði í markaleik