Tvennir afmælistónleikar Ljósbrár

Kvennakórinn Ljósbrá. Ljósmynd/Aðsend

Kvennakórinn Ljósbrá var stofnaður af nokkrum söngelskum konum úr Rangárþingi árið 1989 og hét upphaflega Slaufurnar. Nú er því haldið upp á 30 ára starfsafmæli kórsins.

Fyrstu árin voru kórmeðlimir 10-15, en nú eru í kórnum um 40  konur úr Rangárvalla- og Árnessýslu.  Stjórnandi kórsins síðan haustið 2018 er Ingibjörg Erlingsdóttir.

Ljósbrá heldur tvenna afmælistónleika í tilefni af afmælisárinu. Tónleikarnir verða annars vegar þann 1. maí kl. 16:00 í Hvolnum, Hvolsvelli og hins vegar þann 2. maí kl. 20:00 í Digraneskirkju í Kópavogi.

Efnisskrá tónleikanna er mjög fjölbreytt, bæði lög sem Ljósbrá hefur sungið áður í gegnum árin sem og ný lög sem kórinn er að spreyta sig á í fyrsta sinn. Djassband Suðurlands leikur undir með kórnum á tónleikunum.

Kórkonur vonast til að sem flestir sjái sér fært að koma á tónleikana til að fagna þessum tímamótum og hefja sumarið með söng í hjarta.

Fyrri greinÓmar Vignir tekinn inn í heiðurshöllina
Næsta greinRafstrengur lagður frá Bláfellshálsi að Hveravöllum