Tvær sýningar á bókasafninu

Hluti af verkum Baldvins á sýningunni. Ljósmynd/Aðsend

Tvær sýningar standa yfir í menningarmánuðinum október í Bókasafni Árborgar á Selfossi. Baldvin Jónsson og Guðrún Jóna Ingvarsdóttir, íbúar á Sólheimum, sýna listaverk úr smiðju sinni og alþýðulistamaðurinn Gunnar Gränz sýnir málverk í Listagjánni.

Listasýning frá Sólheimum
Baldvin Jónsson (f. 1982) er listamaður frá Villingavatni í Grímsnes- og Grafningshreppi, sem hefur stundað myndlistarnám í Fjölbrautaskóla Suðurlands og á Sólheimum í Grímsnesi. Baldvin er mikill áhugamaður um myndasögur, Manga teiknimyndir, fantasíur og tölvuleiki og sækir hann helst innblástur í þá myndheima. Baldvin er mjög fær, vandvirkur og nákvæmur myndlistarmaður sem gefur smáatriðum viðfanga sinna góðan gaum. Hann hefur gott lag á því að skapa skemmtilegar og vandaðar eftirmyndir fyrirmynda sinna. Listaverkin sem Baldvin sýnir í Bókasafni Árborgar eru bæði leirlistarverk og vatnslitamyndir.

Guðrún Jóna Ingvarsdóttir (f. 2001) er frá Hvolsvelli og lauk námi á starfsbraut Fjölbrautaskóla Suðurlands vorið 2021. Guðrún Jóna hefur lengi verið mjög listræn en er nýlega farin að leggja stund á myndlist á Sólheimum í Grímsnesi. Guðrún Jóna er hæfileikarík listakona, listaverk hennar eru ævintýraleg og oft fígúratív. Þau einkennast af sköpunargleði og litadýrð. Listaverkin eftir Guðrúnu Jónu sem eru til sýnis í Bókasafni Árborgar eru þæfð ullarverk sem Guðrún Jóna vann í listasmiðju Sólheima nú í sumar.

Málverkasýning Gunnars Gränz
Gunnar er fæddur í Vestmannaeyjum 1932 en flutti á Selfoss árið 1942 og hefur búið þar alla tíð síðan. Gunnar hefur aldrei gengið í listaskóla en lítur á sig sem alþýðulistamann sem lært hefur í skóla lífsins og sótt menntun til íslenskrar náttúru og annarra listamanna í landinu. Hann málar sér til ánægju og hefur haldið fjölda sýninga, bæði einn og með öðrum listamönnum, einnig var hann þátttakandi í Imago Mundi verkefninu, Iceland/Boiling Ice. Gunnar fékk Menningarviðurkenningu Sveitafélagsins Árborgar árið 2016. Málverkin eru flest frá síðustu tveimur áratugum og sýna fjölbreyttan stíl Gunnars.

Eitt verka Gunnars í Listagjánni. Ljósmynd/Aðsend
Baldvin sýnir meðal annars fígúrur úr leir. Ljósmynd/Aðsend
Guðrún Jóna sýnir þæfð ullarverk. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri grein„BES lítur sér nær“ fær styrk frá Sprotasjóði
Næsta greinSéra Haraldur kveður Mýrdælinga