Tvær sýningar í Bókasafninu í Hveragerði

Í Bókasafninu í Hveragerði hefur verið sett upp sýning á sextán ljósmyndum frá Héraðsskjalasafni Árnesinga.

Myndirnar eru úr ýmsum skjala- og ljósmyndasöfnum sem þar eru varðveitt. Þetta eru mannamyndir sem teknar voru við ýmis tækifæri á árunum 1915-1975 víðs vegar á Suðurlandi, þar af nokkrar í Hveragerði.

Myndirnar eru hluti af farandsýningunni Maður er nefndur sem nú ferðast um Suðurland.

Myndirnar eru einnig á Facebook síðu safnsins og eru sýningargestir hvattir til að koma upplýsingum um þá sem þeir þekkja á myndunum til héraðsskjalasafnsins gegnum Facebook síðuna eða bókasafnið.

Einnig eru nú sýnd í safninu prentuð veggspjöld eftir klippimyndum Katarzyna Perlak sem dvaldi í listamannahúsinu Varmahlíð í Hveragerði nú fyrir skömmu.

Myndirnar tengjast komu hennar til landsins og sýn á samfélagið miðað við fréttir í blöðum. Katarzyna er lærður ljósmyndari og heimspekingur og leggur stund á framsækna nútímalist og ljósmyndun, kennir við Cumberland College of Art og vinnur við annað sem til fellur.

Hún heillaðist mjög af Íslandi og kemur örugglega aftur til að halda sýningu hér. Heimasíða með vangaveltum hennar og myndum er www.bothslashand.com og þar má m.a. sjá myndir sem hún vann meðan hún dvaldi í Hveragerði.

Sýningarnar standa út júnímánuð og eru opnar um leið og safnið.

Fyrri greinAnnar stórsigur Selfyssinga
Næsta greinSumardeild KKÍ í götubolta