Tuttugu ára afmæli Kammertónleika

Hinir árlegu Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri hefjast í kvöld en í ár er tuttugu ára afmæli tónleikanna.

Tónlistarmennirnir sem koma fram á tónleikunum í ár eru Edda Erlendsdóttir, píanó, Elfa Rún Kristinsdóttir, fiðla, Helga Þóra Björgvinsdóttir, fiðla, Þórunn Ósk Marinósdóttir, víóla, Margrét Árnadóttir, selló, Daníel Bjarnason, píanó, Francisco Javier Jáuregui, gítar og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, mezzósópran og listrænn stjórnandi.

Píanóleikarinn Edda Erlendsdóttir hlaut nú í ár bæði riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín á vettvangi íslenskrar tónlistar og íslensku tónlistarverðlaunin fyrir plötu ársins, þar sem hún túlkar píanókonserta eftir Haydn, en Edda mun flytja einn konsertanna á hátíðinni í útgáfu með strengjakvartett.

Á Kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri er flutt kammertónlist frá ólíkum tímabilum tónlistarsögunnar fram á okkar daga, en það er aðstandendum hátíðarinnar sérstakt gleðiefni að hafa fengið tónskáldið, hljómsveitarstjórann og píanóleikarann Daníel Bjarnason til þess að semja sérstaklega nýtt verk til frumflutnings á hátíðinni. Verkið heitir Larkin Songs og er skrifað fyrir mezzósópran og píanókvintett, en Daníel mun sjálfur leika píanópartinn. Daníel hlaut íslensku tónlistarverðlaunin í ár, bæði sem höfundur ársins, fyrir tónverkin á plötunni Processions, og fyrir tónverk ársins, Bow to string.

Fiðluleikararnir Elfa Rún Kristinsdóttir og Helga Þóra Björgvinsdóttir, víóluleikarinn Þórunn Ósk Marinósdóttir og sellóleikarinn Margrét Árnadóttir eru allar í fremstu röð íslenskra strengjaleikara og hafa komið fram sem einleikarar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og víðar. Árið 2006 hlaut Elfa Rún bæði íslensku tónlistarverðlaunin og fyrstu verðlaun í Johann Sebastian Bach tónlistarkeppninni í Leipzig. Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og listrænn stjórnandi er margverðlaunuð í alþjóðlegum söngkeppnum og hefur komið fram víðs vegar í Evrópu og sungið inn á geisladiska, en gítarleikarinn Francisco Javier Jáuregui hefur komið fram bæði sem einleikari og meðleikari í Evrópu, Bandaríkjunum og Suð-austur Asíu.

Það er Menningarmálanefnd Skaftárhrepps sem stendur fyrir hátíðinni en upplýsingar og miðapantanir eru í síma: 487-4620. Miðaverð: 2.000 kr. á staka tónleika, 5.000 kr. á alla tónleikana, 1.900 kr. fyrir eldri borgara, 4.500 kr. fyrir eldri borgara á alla tónleikana, 20% hópafsláttur fyrir 10 manns og fleiri.

Efnisskrá Kammertónleika á Kirkjubæjarklaustri 6. – 8. ágúst 2010

Föstudagur 6. ágúst kl. 20:00
Edvard Grieg: Ljóðræn smálög fyrir píanó og sex ljóð eftir Ibsen fyrir rödd og píanó, Op. 25.
Claude Debussy: Strengjakvartett, Op. 10.

Laugardagur 7. ágúst kl. 20:00
Agustín Castilla-Ávila: Adriano fyrir mezzósópran og gítar.
Arvo Pärt: Es sang vor langen Jahren fyrir alt, fiðlu og víólu.
Salvatore Sciarrino: Capricci fyrir einleiksfiðlu.
Mario Castelnuovo-Tedesco: Kvintett fyrir gítar og strengjakvartett, Op. 143.

Sunnudagur 8. ágúst kl. 15:00
Francisco Javier Jáuregui: Sephardic Songs fyrir mezzósópran og gítar.
Sergei Prokofiev: Sónata fyrir tvær fiðlur, Op. 56.
Daníel Bjarnason: Larkin Songs (FRUMFLUTNINGUR) fyrir mezzósópran og píanókvintett.
Franz Joseph Haydn: Konsertínó í f-dúr fyrir píanó.