Tuttugu ár síðan Foo Fighters djammaði á Stokkseyri

Dave Grohl ásamt hljómsveitinni Nilfisk fyrir utan Fjöruborðið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í dag eru tuttugu ár síðan stórstjörnurnar í hljómsveitinni Foo Fighters heimsóttu félaga sína í hljómsveitinni Nilfisk á Stokkseyri.

Þetta var í annað skiptið sem Foo Fighters heimsótti Stokkseyri en tveimur árum áður höfðu þeir uppgötvað Nilfisk í bílskúr í þorpinu og boðið þeim í kjölfarið að koma fram á tónleikum í Laugardalshöllinni.

Þeir sem voru viðstaddir heimsókn hljómsveitarinnar á Draugasetrið þann 4. júlí 2005 munu seint gleyma þessum degi. Dave Grohl, söngv­ari og gít­ar­leik­ari, og tromm­ar­inn Tayl­or heitinn Hawk­ins stigu á stokk og léku af fingr­um fram með þeim Jó­hanni Vigni og Sig­ur­jóni Dan úr Nil­fisk. Nokkur fjöldi fólks varð vitni að þessu, meðal annars ung­linga­strengja­sveit frá Wiscons­in í Banda­ríkj­un­um sem hélt tón­leika á Stokks­eyri fyrr sama dag og ætluðu ung­menn­in varla að trúa sín­um eig­in aug­um þegar goðin birt­ust í þorpinu. Í föruneyti þeirra voru einnig meðlimir hljómsveitanna Qu­eens of the Stone Age og Mín­us.

Að loknu kröftugu djammi á Draugasetrinu þerruðu er­lendu gest­irn­ir af sér svit­ann og fóru hring á Drauga­setr­inu og sagðist Grohl hafa haft mikið gam­an af, enda hrökk hann í kút hvað eft­ir annað. Hljóm­sveit­armeðlim­ir slökuðu síðan á, fengu sér öl og brenni­vín og virtu fyr­ir sér sól­ar­lagið við varðeld í fjöru­borðinu. Reyndar stóð sú gleði fram á nótt.

Blaðamaður Sunnlenska fréttablaðsins og sunnlenska.is var á staðnum og hér fyrir neðan má sjá nokkrar áður óbirtar myndir frá þessari heimsókn. Þar má meðal annars sjá Crossfit-kempuna Björgvin Karl Guðmundsson og fleiri góða Stokkseyringa með stjörnur í augum að fylgjast með Grohl.

Ljósmyndir/Guðmundur Karl

Fyrri greinMorgunhani sem langar að vera nátthrafn
Næsta greinHamar tapaði í uppgjöri botnliðanna