Tungnamenn fá tvo miða á verði eins

Aðventutónleikar Söngfjelagsins verða í Langholtskirkju á morgun, laugardag, kl. 17 og 20. Einsöngvarar á tónleikunum verða þau Björg Þórhallsdóttir sópran og Einar Clausen tenór.

Á efnisskránni eru þekkt og klassísk jólalög í bland við nýrri tónlist frá ýmsum löndum. Frumflutt verður nýtt jólalag eftir Þóru Marteinsdóttur, en hún tengist Söngfjelaginu sterkum böndum þar sem margir Söngfjelagar ólust upp í Dómkórnum hjá föður hennar, Marteini Hunger Friðrikssyni. Lagið skrifaði Þóra sérstaklega fyrir Söngfjelagið, við ljóðið Stjörnunótt eftir Þorstein Valdimarsson.
Söngfjelagið gengur hér inn í áralanga hefð sem stjórnandinn Hilmar Örn Agnarsson skapaði í Skálholti. Þar stóð hann lengi fyrir aðventutónleikum sem nutu mikilla vinsælda á Suðurlandi. Með Söngfjelaginu er þessu starfi haldið áfram í Reykjavík, en kórinn hélt sína fyrstu aðventutónleika í Háteigskirkju fyrir ári og komust þá færri að en vildu.
Söngfjelagið var stofnað haustið 2011 og kom það til af áhuga hóps söngfólks á að flytja vandaða kórtónlist undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. Hann er á meðal reyndustu kórstjóra landsins og hefur m.a. hlotið athygli og viðurkenningu á alþjóðavettvangi með Kammerkór Suðurlands. Söngfjelagið telur nú um 60 manns, allt ýmist kórvant eða tónlistarmenntað fólk.
Forsala aðgöngumiða á aðventutónleikana er á Midi.is og hjá Söngfjelögum. Tungnamönnum eru boðnir tveir miðar á verði eins – pantanir á netfanginu jolsongfjelagid@gmail.com.
Fyrri greinTöfrabragðanámskeið á Selfossi
Næsta greinJón Daði semur við Viking