Tónlistarmessa í Strandarkirkju

Tónlistarflutning annast Björg Þórhallsdóttir sópran, Elísabet Waage hörpuleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti.

Á tónlistarhátíðinni Englar og menn í Strandarkirkju verður tónlistarmessa nk. sunnudag kl. 14.

Viðburðinn ber upp á Þorláksmessu á sumri en þar mun sr. Sigríður Munda Jónsdóttir sóknarprestur leiða stundina og tónlistarflutning annast Björg Þórhallsdóttir sópran, Elísabet Waage hörpuleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti. Í lok stundarinnar munu þau einnig flytja nokkur íslensk og erlend sönglög eftir Emil Thoroddsen, Atla Heimi Sveinsson, Sigfús Einarsson, Scubert, Mendelssohn, Pärt o.fl.

Strandarkirkja er þekktasta áheitakirkja landsins. Þorláksmessa á sumri er 20. júlí og var lögleidd 1237 til að minnast þess að þann dag 1198 voru bein Þorláks tekin upp til að nýtast til áheita. Var sumarmessa þessi ein mesta hátíð ársins á Íslandi fyrir siðaskipti.

Aðgangur að tónlistarmessunni er ókeypis.

Fyrri greinEr að reyna að læra að ropa
Næsta greinPhyrrosarsigur gegn Grindavík í Vogunum