Tónlistarhátíð til verndar Þjórsár

Anna Sigríður Valdimarsdóttir. Ljósmynd/Aníta Ólöf Jónsdóttir

Næstkomandi laugardag verður tónlistarhátíðin Þjórshátíð haldin í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, nánar tiltekið við mynni Þjórsárdals með útsýni yfir Þjórsá að Heklu.

„Tilgangur hátíðarinnar er að vekja athygli á svæðinu sem myndi verða sökkt og umbreytt ef áform um Hvammsvirkjun ná fram að ganga, en einnig almennt um virði náttúrunnar í sjálfu sér og mikilvægi hvers hlekks í lífkeðjunni – en ekki einungis þess neyslufrekasta,“ segir Anna Sigríður Valdimarsdóttir, ein af skipuleggjendum hátíðarinnar, í samtali við sunnlenska.is

„Einn hlekkur má ekki þenjast út á kostnað annarra, án þess að keðjan bresti. Hátíðin í ár verður haldin til minningar um kæra vinkonu, náttúruverndarsinna og fyrirmyndar manneskju, Helgu Katrínu Tryggvadóttur sem átti stóran þátt í hátíðinni sem var haldin 2012,“ segir Anna en þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin.

Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni eru GDRN, Beebee and the bluebirds, Teitur Magnússon og Æðisgengið, Hellidemba og Gróa.

Auk tónlistaratriða verður boðið upp á ýmsa menningartengda viðburði eins og til dæmis göngu- og fræðsluferðir og nokkur örerindi.

„Við sem stöndum að hátíðinni erum að hluta til sami hópur og kom að hátíðinni 2012 og hefur unnið að verndun Þjórsár síðastliðinn áratug, vinkonur og samstarfsfólk Helgu úr Stelpur Rokka og fjölskylda hennar hér í Gnúpverjahreppi,“ segir Anna.

Svæðið meira virði óspillt en sökkt
„Tilkoma hátíðarinnar birtist í sjálfu sér að miklu leyti í tilgangi hennar – en vissulega hanga áform um virkjun Þjórsár hér neðan Búrfells yfir íbúum og sundra samfélaginu. Við sem teljum svæðið meira virði óspillt en sökktu og umbreyttu teljum ástæðu til að halda sjónarmiðum verndar til haga og minna á hvert við stefnum,“ segir Anna.

„Almennt verðum við vör við jákvæð viðbrögð, hvort heldur þegar fyrri hátíðin var haldin, sem nú. Meðbyrinn með þessum sjónarmiðum hefur heldur aukist frekar en hitt. Það er að minnsta kosti okkar upplifun,“ segir Anna að lokum.

Hátíðin er opin öllum og aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Sjá nánar um hátíðina á Facebook-viðburði Þjórshátíðar.

Fyrri greinAf rassgarnarendum merarinnar og meintri kristnitöku á Alþingi
Næsta greinNauðlenti svifvæng í Búrfelli