Tónleikar og sýningarhald í allt sumar

Menningarveisla Sólheima verður formlega opnuð á laugardag af Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningamálaráðherra.

Þetta er í fimmta sinn sem menningarveislan er haldin og stendur hún til 14. ágúst. Dagskráin er með fjölbreyttasta móti en boðið er upp á tónleika, sýningar og fyrirlestra í allt sumar.

Sýningin „Dýrin mín stór og smá“ er sýning þar sem kunnugleg dýr og furðuskepnur sprottnar úr hugarheimi listamanna verða til sýnis. Sýningin „Leiftur frá liðinni tíð“ er ljósmyndasýning þar sem myndirnar hafa verið meðhöndlaðar með vaxi og ljósi á nýstárlegan hátt. Sýningin „Sjálfbær byggð“ er samstarfsverkefni Sesseljuhúss, Landbúnaðarháskóla Íslands og Skipulagsfræðingafélags Íslands. Sýningarnar eru opnar gestum og gangandi alla daga í sumar.

Tónleikar verða alla laugardaga í Sólheimakirkju og hefjast kl. 14, fyrstu tónleikarnir verða með Sólheimakórnum, Diddú um aðra helgi svo South River Band og áfram má telja.

Mikill fjöldi fyrirlestra verður í Sesseljuhúsi, þar sem m.a. verður fjallað um plöntur, jarðfræði, fugla, lækningajurtir, umhverfisvæna ferðaþjónustu og eldgos. Nánari upplýsingar má nálgast á www.solheimar.is

Það eru allir velkomnir á Menningarveislu Sólheima og ókeypis er á alla viðburði.

Fyrri grein„Kippir fótunum undan starfseminni“
Næsta greinPikkföstum ferðamönnum bjargað