Tónleikar og fyrirlestur á Sólheimum

Björg Þórhallsdóttir sópransönkona, Hilmar Örn Agnarsson orgelleikari og Elísabet Waage hörpuleikari munu leika klassískar dægurlagaperlur á tónleikum í Sólheimakirkju í dag kl. 14.

Á efnisskránni eru m.a. lög eftir Atla Heimisson, Sigvalda Kaldalóns og Sigfús Halldórsson.

Að tónleikum loknum eða klukkan 15:00 verður afar spennandi fyrirlestur í Sesseljuhúsi um jurtalitun. Guðrún Bjarnadóttir, náttúrufræðingur, fjallar um sögu og aðferðir jurtalitunar á Íslandi og fer í stutta göngu í leit að litunarjurtum.

Orkugarður Sólheima var opnaður fyrir skömmu og þar geta gestir fræðst um og séð í smækkaðri mynd þá endurnýjanlegu orkugjafa sem eru í notkun hér á landi

Margar sýningar eru í gangi í tilefni af menningarveislunni. Í Ingustofu er sýningin „Svona gerum við“ en það er samsýning vinnustofa Sólheima. Í Íþróttaleikhúsinu er sýningin „Svona erum við“ en Pétur Thomsen ljósmyndari myndaði íbúa Sólheima í raunstærð við leik og störf. Í Sesseljuhúsi er sýningin „Vistvænt skipulag“ sem meistararnemar í byggingaverkfræði og skipulagsfræði við Háskólann í Reykjavík gerðu. Loks er að finna sérkennileg tröll upp í trjám hjá versluninni Völu þetta er sýningin „Tröll í trjám“ eftir Lárus Sigurðsson.

Sýningarnar, verslunin Vala og kaffihúsið Græna kannan eru opin alla daga vikunnar 9 – 18 á virkum dögum og 12 – 18 um helgar og það er ókeypis á alla viðburði og sýningar menningarveislunnar.