Tónleikar og álfafræðsla á Sólheimum

Í dag kl. 14 verða tónleikar Duo Syntagma í Sólheimakirkju en þeir flytja fjöruga og seiðandi tónlist frá Balkanskaganum.

Í Sesseljuhúsi fræðir Erla Stefánsdóttir gesti um álfaheima og orku í íslenskri náttúru. Einnig eru sýningarnar “Svona gerum við” í Ingustofu og “Svona erum við ” í íþróttaleikhúsinu opnar alla daga.

Sólheimar er mikið ævintýrasvæði og í trjánum leynast tröllamyndir og í trjástígum leynast ljóðaskilti, við hitaveituna er heitt lón til að busla í, höggmyndagarður með verk eftir íslenska listamenn, trjásafn með 58 mismunandi trjátegundum sem allar eru orðnar sjö ára gamlar og gaman að sjá hversu misjafnlega þau vaxa og dafna við íslenskar aðstæður.

Græna Kannan er opin alla daga með góðgæti úr bakaríi Sólheima og Verslunin Vala með lífrænt góðgæti og muni frá vinnustofum Sólheima.

Opnunartími á sýningunum, kaffihúsinu, versluninni og plöntusölunni er frá kl 12:00 – 18:00 alla daga. Aðgangur á listviðburði er ókeypis.