„Tónleikar fyrir þá sem eru til í eitthvað öðruvísi“

Ingó og Gummi á lundapysjuvaktinni í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þann 21. desember næstkomandi munu bræðurnir Ingólfur og Guðmundur Þórarinssynir halda jólatónleika á Hótel Selfossi.

Er þetta í annað sinn sem þeir bræður halda jólatónleika saman en tónleikarnir á sama stað í fyrra þóttu einstaklega vel heppnaðir og komustu færri að en vildu.

„Upphaflega pælingin mín var að halda bara létta tónleika heima hjá gamla settinu og kynna nýjar hugmyndir. Sú hugmynd breyttist í Tryggvaskála en þá sagði Gummi að það myndu miklu fleiri vilja koma svo við tókum þetta alla leið. Hann reyndist hafa rétt fyrir sér og tónleikarnir í fyrra voru með því skemmtilegra sem ég hef upplifað gegnum tónlistarferilinn, “ segir Ingó í samtali við sunnlenska.is.

Aðspurður út í lagavalið segir Ingó að það séu sirka tíu lög sem þeir verði að taka sama hvað þeim finnst en restin er töluvert púsluspil.

„Gummi vill syngja meira en ég hef sjálfur meira gaman af því að blaðra og segja sögur. Við munum allavega ekki rífast um þetta og frekar hafa bara nóg af aukalögum. Við munum flytja okkar vinsælustu lög, bestu lögin að eigin mati og kynna svo einhverjar nýjar hugmyndir að lögum,“ segir Ingó en vert er að taka fram að þó að þetta séu jólatónleikar þá verða engin jólalög spiluð á þessum tónleikum.

Nýtt hetjulag frumflutt
Á jólatónleikunum í fyrra var samnefnt lag um Valla Reynis frumflutt. Það lag náði svo gríðarlegum vinsældum og má segja að hápunkturinn hafi verið þegar brekkan í Eyjum söng lagið á Þjóðhátíð við undirspil Ingós.

Ingó segir að á jólatónleikunum í ár verði flutt nýtt hetjulag en því miður verði það ekki tilkynnt strax um hvern lagið fjallar. „Ég hélt að Valla Reynis-gleðin væri bara búinn þegar ég labbaði út af Hótel Selfoss þetta kvöld. Sú saga er þó rétt að byrja og margt óvænt um Valla mun koma í ljós. Og fleira skemmtilegt er í bígerð,“ segir Ingó.

„Tónleikarnir okkar eru kannski mest fyrir þá sem eru til í eitthvað öðruvísi en hefðbundna jólatónleika. Einnig fyrir þá sem vilja láta koma sér á óvart. Kvöldið í fyrra var einstakt og margir sem okkur hefði ekki grunað að myndi langa til að koma búnir að kaupa sér miða og frábært að það sé að verða uppselt svona fljótt,“ segir Ingó.

„Því miður er 18 ára aldurstakmark á tónleikana en við ætlum að reyna að gera eitthvað fyrir yngri kynslóðina fyrr um daginn. Við viljum að lokum þakka sveitungum okkar og öllum öðrum fyrir frábærar viðtökur og að vilja eiga frábært kvöld saman. Við hlökkum mikið til,“ segir Ingó kátur að lokum.

Hægt er að nálgast miða inn á tix.is.

Fyrri greinBergrós og Bjarki nýliðar ársins
Næsta greinNámunni í Bolaöldum lokað og svæðið afhent ríkinu