Tónleikahátíð sem vekur fólk til umhugsunar um náttúruna

Á morgun, laugardag, verður haldin tónleikahátíð er ber heitið Þjórshátíð. Hátíðin verður haldin í Flatholti, í landi Stóra-Núps í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

„Hugmyndin með hátíðinni er að vonast til að vekja fólk til umhugsunar um náttúruna og mikilvægi hennar auk þess sem það hugleiði hvað óafturkræfar framkvæmdir geti haft í för með sér fyrir náttúruna, lífríkið, menn og samfélög,“ segir Anna Sigríður Valdimarsdóttir ein af aðstandendum hátíðarinnar.

„Við viljum að fólk sjái og kynni sér svæðin sem eru til umfjöllunar í þessari virkjanaumræðu allri og einbeitum okkur að því svæði sem við þekkjum best sem er okkar heimasveit, “ segir Anna Sigríður.

Hátíðin verður sett kl. 13:00 með málþingi um baráttuna fyrir verndun Þjórsár. Frá kl. 15:00-17:00 verða gönguferðir með leiðsögn, bændamarkaðir, hestateymingar fyrir börnin og opinn dagur verður í Skaftholti.

Tónleikadagskrá byrjar í brekkunni í Flatholti kl. 17:00 og verður fram eftir kvöldi. Á hátíðinni koma fram Maggi Kjartans, Vigri, Kristján Hrannar, Ylja, Lockerbie, The Lovely Lion, Júníus Meyvant, Múgsefjun, Pascal Pinion, Valdimar, Boogie Trouble, RetRoBot og Brussel og Klukkuspilarnir.

Aðgangur er ókeypis.

Fyrri greinViðburður sem gleymist seint
Næsta greinBjörgunarmiðstöðin á Selfossi vígð