Tónleikahátíð sem vekur fólk til umhugsunar um náttúruna

Á morgun, laugardag, verður haldin tónleikahátíð er ber heitið Þjórshátíð. Hátíðin verður haldin í Flatholti, í landi Stóra-Núps í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

„Hugmyndin með hátíðinni er að vonast til að vekja fólk til umhugsunar um náttúruna og mikilvægi hennar auk þess sem það hugleiði hvað óafturkræfar framkvæmdir geti haft í för með sér fyrir náttúruna, lífríkið, menn og samfélög,“ segir Anna Sigríður Valdimarsdóttir ein af aðstandendum hátíðarinnar.

„Við viljum að fólk sjái og kynni sér svæðin sem eru til umfjöllunar í þessari virkjanaumræðu allri og einbeitum okkur að því svæði sem við þekkjum best sem er okkar heimasveit, “ segir Anna Sigríður.

Hátíðin verður sett kl. 13:00 með málþingi um baráttuna fyrir verndun Þjórsár. Frá kl. 15:00-17:00 verða gönguferðir með leiðsögn, bændamarkaðir, hestateymingar fyrir börnin og opinn dagur verður í Skaftholti.

Tónleikadagskrá byrjar í brekkunni í Flatholti kl. 17:00 og verður fram eftir kvöldi. Á hátíðinni koma fram Maggi Kjartans, Vigri, Kristján Hrannar, Ylja, Lockerbie, The Lovely Lion, Júníus Meyvant, Múgsefjun, Pascal Pinion, Valdimar, Boogie Trouble, RetRoBot og Brussel og Klukkuspilarnir.

Aðgangur er ókeypis.