Tónar og ljóð í Oddakirkju

Í kvöld kl. 20 heldur tónlistarparið Ingrid Örk Kjartansdóttir og Leifur Gunnarsson tónleika í Oddakirkju, undir merkjum tónleikaraðarinnar Sumar í Odda.

Á efnisskránni er ný tónlist eftir Leif sem er skrifuð við ljóð þekktra íslenskra ljóðskálda, í bland við nokkur þekkt dægurlög.

Hrjóstrugir heimar dúettaformsins verða kannaðir og litríkt tónmál djasskenndra tónsmíða túlkað af annars frekar sjaldheyrðri hljómsveitarskipan. Innblástur tónlistarinnar er sóttur í íslenska náttúru, fósturlandsást, trúna og æskuna, en tónlistin er skrifuð við ljóð Þorsteins Erlingssonar, Jóhannesar úr Kötlum, Steins Steinarrs og Huldu.

Ingrid og Leifur stunda bæði háskólanám í tónlist í Kaupmannahöfn, hún við tónlistarfræðideild Kaupmannarhafnarháskóla en hann við Ritmíska konservatoríið, en þess má geta að Leifur stundaði á sínum yngri árum nám við Tónlistarskóla Árnesinga á Selfossi.

“Sumar í Odda” er tónleikaröð sem félagar í Kór Odda- og Þykkvabæjarkirkna hafa staðið fyrir undanfarin ár. Markmiðið er að vekja athygli á þessum sögufræga og fallega stað og gefa ýmsum aðilum tækifæri til að koma fram hvort sem um er að ræða gamalreynda eða unga og óreynda listamenn. Margir hafa komið fram og glatt gesti með framlagi sínu, bæði heimamenn og aðrir. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til og hefur aðsókn aukist ár frá ári.

Fyrri greinYtri-Rangá að detta í þúsund laxa
Næsta greinHrikalega flottir tónleikar á Sumar á Selfossi