Tóm&Sjerrí í Þorlákskirkju á sunnudaginn

Tóm&Sjerrí.

Sunnudaginn 7. desember munu Tóm&Sjerrí blása til hljómleika í Þorlákskirkju. Tóm&Sjerrí er samstarfsverkefni hljómlistarmannanna Tómasar Jónssonar hljómborðsleikara og Sigurðar Guðmundssonar, stórsöngvara. Báðir eru þeir orgel- og hljóðgervlaunnendur.

Tóm&Sjerrí hafa síðastliðin þrjú jól gefið út tveggja laga stuttskífur með eigin kankvísum útgáfum af þekktum jólalögum undir titlinum Jól við garganið sem finna má á streymisveitum. Á sama tíma og þeir vinna hörðum höndum fjórum að útgáfu fjórða bindis stuttskífubálksins munu þeir halda hljómleika í Þorlákskirkju.

Í bland við Tóm&Sjerrí katalóginn munu einnig koma fram þeir sjálfir, Sigurður Guðmundsson og Tómas Jónsson og flytja vel valdar perlur sem fólk þekkir betur og ylja rætur hjartans. Eins og flestum er kunnugt er Sigurður Guðmundsson órjúfanlegur hluti af aðventu svo margra eftir útgáfu á plötunni Nú stendur mikið til sem kom út fyrir um það bil 15 árum.

Tónleikarnir eru eins og áður segir í Þorlákskirkju í Þorlákshöfn sunnudaginn 7. desember, þeir hefjast kl. 17 og fást miðar á tix.is.

Tómas Jónsson og Sigurður Guðmundsson.
Fyrri greinAlexander endurtekur jólaósk sína
Næsta greinSöfnuðu rúmlega 1,7 milljónum króna fyrir Sigurhæðir