Tómatarnir munu roðna sem aldrei fyrr

Margrét Erla Maack mætir aftur á Friðheima með fjölbreytt fylgdarlið laugardaginn 22. október og fíflast innan um tómataplöntur. Í þetta sinn verður glænýtt fólk með margréti og ný atriði en gleðin og ærslin verða í fyrirrúmi.

Með í för verða dansmærin með gullbarkann Miss Mimi, sirkusfolinn Hand Solo og dragundrið Gógó Starr. Um er að ræða fullorðins-fjölbragðasýningu þar sem púslað er saman alls konar atriðum.

Sirkusfoli og dansari með galdrarasskinnar
„Gógó Starr er landsins besta dragdrottning að mínu mati og á svo mikið af furðulegum og fyndnum atriðum að ég var í algjörum vanda að velja hvaða atriði ég vildi að hún kæmi með. Þarna er líka burlesque- og kabarettdaman Miss Mimi sem er gríðarlega þokkafullur dansari með galdrarasskinnar og gullraddbönd. Hand Solo er svo íslenskur sirkusfoli sem hefur meðal annars sýnt með Sirkus Aotearoa í Nýja Sjálandi. Hann mun standa til dæmis á höndum meðan við stöndum á öndinni. Ég sjálf mun svo sjá um klassískt burlesk, sverðgleypingar og hnífakast,“ segir Margrét í samtali við sunnlenska.is.

„Svona sýningar ganga út á að koma inn í alls konar rými og breyta þeim í alþjóðlega kabarettklúbba eina kvöldstund. Ég kom með sýningu á Friðheima fyrir ári síðan með skemmtilegum hópi og núna kemur annað fólk með mér með ný atriði. Það voru öll í senunni mjög spennt eftir síðustu ferð og ég gat alveg handvalið úr listamönnum,“ bætir hún við.

Þú talar um fullorðins… er þetta eitthvað voðalega dónalegt?
„Sko, það fer alveg eftir því hvernig þú spyrð,“ segir Margrét og hlær. „Mér finnst svona sýning óður til mannslíkamans og almenns þokka en hún gæti auðvitað farið fyrir brjóstið á einhverjum, og það er bara alveg eðlilegt. Svona sýningar eru alls ekki fyrir alla og ég er heldur ekki í þessu til að gera sýningar fyrir alla. Okkur finnst gaman að skemmta forvitnu fólki sem hlær hátt og er til í að sjá öðruvísi sýningar en við erum vön. Og ekki skemmir fyrir að vera í svona skemmtilegu og óvenjulegu umhverfi.“

En hvernig er gróðurhúsi breytt í kabarettleikhús?
„Það þarf nú minna að gera á Friðheimum en á mörgum öðrum stöðum. Við setjum upp svið og komum með hljóðkerfi. Ég man eftir að í fyrra var ein mynd sem ég notaði af einni konu að reykja sígó, en Dóróthea sagði að það mætti alls ekki koma með tóbak inn í húsið þar sem tómatplantan og tóbaksplantan eru of náskyldar. Alveg magnað,“ segir Margrét að lokum.

Takmarkaður miðafjöldi og bannað innan 20
Síðast þegar Margrét mætti með sýningu á Friðheima var uppselt en miðafjöldi er takmarkaður og sýningin bönnuð innan 20 ára. Hún hentar ekki þeim sem óttast undur mannslíkamans og er óhætt að segja að tómatarnir á Friðheimum munu roðna sem aldrei fyrr.

Húsið er opnað kl. 20 og sýningin hefst kl. 21 en miðasala er í fullum gangi á Tix.is.

Frá síðustu heimsókn á Friðheima. (F.v.) Tom Harlow, Dan the Man, Margrét Maack, Bibi Bioux og Bobbie Michelle. Nú kemur Margrét með glænýtt fólk. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHeillandi skólaskápur kynntur á opnu húsi
Næsta greinÞorsteinn skipaður skrifstofustjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu