Tómatar & tangó á Friðheimum

Piazzolla Quintet.

Föstudaginn 7. júní næstkomandi verður sannkölluð menningarveisla í Vínstofu Friðheima í Reykholti. Þar mun Piazzolla Quintet leika tónlist argentínska snillingsins Astor Piazzolla.

Tónlist Piazzolla er hinn svokallaði nýi tangó (nuevo tango) og er afar áhugaverð samsuða af tangó, djass og klassískri tónlist – sem greinilega má heyra í verkum hans. Meðal verka á tónleikunum má nefna Adios Nonino, sem Piazzolla samdi í minningu föður síns og hinn sívinsæla Libertango sem flestir áhugamenn um tónlist ættu að kannast við. Einnig verður hægt að hlýða á hið undurfagra Oblivion. Að auki má nefna Árstíðirnar í Buenos Aires – verk í fjórum köflum sem túlkar árstíðirnar í argentínsku höfuðborginni.

Hljóðfæraleikarar kvintettsins eru margreyndir, þau Jón Þorsteinn Reynisson á harmoniku, Joaquin Páll Palomares á fiðlu, Jón Bjarnason á píanó, Ásgeir Ásgeirsson á rafgítar og Alexandra Kjeld á kontrabassa.

Þetta er einstakt tilefni til að njóta suðrænna tóna í suðræna loftslaginu í gróðurhúsunum.

Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 en tilvalið er að bóka borð í mat og drykk fyrir tónleikana. Miðaverð er 5.900 kr og bókanir fara í gegnum fridheimar@fridheimar.is.

Fyrri greinMatvælaráðherra heimsótti kúabændur á Suðurlandi
Næsta greinFuglar og flóra við Sogið