Töfrandi helgi framundan

Einar Mikael töframaður verður á Suðurlandi um helgina, hann kom fram á Hellu í gær, verður á Hvolsvelli í kvöld og á Þorlákshöfn og Selfossi á laugardag og sunnudag.

Einar kom fram á Suðurlandi í fyrra og segir sýningarnar þar hafa verið frábærar.

„Það var troðið á öllum sýningunum og ég man sérstaklega eftir sýningunni á Selfossi það þurfti að seinka sýningunni um korter því það troðfylltist allt og við höfðum ekki undan að setja inn fleiri stóla. Nýja sýningin er töluvert flottari og það eru stærri sjónhverfingar þar sem ég mun saga sjálfan mig í sundur, skera hendina mína í þrjá hluta og síðan mun einn heppinn áhorfandi fá að svífa í lausu lofti,“ sagði Einar í samtali við sunnlenska.is.

„Það verður rífandi stuð og stemming og allir eiga eftir að skemmta sér konunglega.“

Sýningin er partur af undirbúningin Einars í að setja heimsmet þar sem hann stefnir á að gera flestar sjónhverfingar á þremur mínútum.

„Jafnt ungir sem aldnir hafa gaman af þessari sýningu og ég hvet foreldra til að tryggja sér miða og mæta með börnin sín, því þetta er sannkölluð fjölskylduskemmtun,“ segir Einar að lokum.

Eftir sýninguna gefst fólki kostur á að kaupa ýmsa töfrahluti fyrir upprennandi töframenn. Einnig gefst gestum tækifæri á að fá mynd af sér með Einari töframanni og ekta Hogward töfradúfum.

8. mars Hvolsvöllur – Hvolur – kl. 17:00

9. mars Þorlákshöfn – Versölum – kl. 15

10. mars Selfoss – FSu – tvær sýningar kl. 15 og 19:30

Fyrri greinDregið í 8-liða úrslit
Næsta greinStuðningurinn skiptir mjög miklu máli