Töðugjöldin um helgina

Bæjarhátíðin Töðugjöld verður haldin á Hellu um helgina. Dagskráin hefst á föstudagskvöld en lýkur á laugardagskvöld.

Bænum er skipt upp í fjögur hverfi, hvert með sínum lit og hefur eitt hverfi það hlutverk að skipuleggja hátíðina hverju sinni. Veittur er farandbikar fyrir best skreytta húsið eða býlið í sveitafélaginu, þannig að hörð samkeppni ríkir í skreytingum.

Á föstudagskvöldi er heimboð þar sem einn ákveðinn litur, sem ekki kom að skipulagningu hátíðarhaldanna, tekur á móti gestum og láta íbúar kyndla loga þar sem gestir eru velkomnir. Í ár tekur bláa hverfið á móti gestum.

Á laugardeginum eru opin sölu- og markaðstjöld, fjölmargir leikir og önnur atriði eru yfir daginn fyrir börn, bíla- og tækjasýningar, hellaskoðun og margt fleira er hægt að duna sér bæði í bænum og í nágrenninu. Um kvöldið er farið í skrúðgöngu um bæinn á skemmtidagskrána sem fer fram á sviði utandyra. Þar er meðal annars keppt í ýmsum þrautum.

Að dagskrá lokinni er brekkusöngur og glæsileg flugeldasýning á vegum Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu og stórdansleikur á eftir.

Fyrri greinÁ 165 km/klst hraða á slóðum banaslyss
Næsta greinStórum áfanga náð í Búðarhálsvirkjun