Tjull og teboð

Leir 7 í Stykkishólmi kynnir tebolla í teboði sem haldið verður í versluninni Hosiló á Selfossi í kvöld, fimmtudagskvöld milli kl 19:30 og 21:30.

Leir 7 er fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á vöru úr leirnum frá Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Sigríður Erla Guðmundssdótir stofnaði fyrirtækið árið 2007 í Stykkishólmi. Hún hefur um árabil unnið að tilraunum og tamningu leirsins sem er aðalhráefni í framleiðslunni. Það sem helst einkennir framleiðsluna er tenging við bragðlaukana.

Hosiló er kjólaverslun á Selfossi sem hefur í þrjú ár selt kjóla með karakter, peysur, sjöl, snið og aukahluti. Allar vörurnar hafa átt fyrri eigendur, en fáir vita sögu þeirra. Kjólarnir eru mis gamlir, einstakir, rómantískir og ómótstæðilegir.

Í Teboðinu í kvöld verða bollar fjögurra keramikhönnuða kynntir í Hosiló. Elísabet Haraldsdóttir sýnir Aðalbláan sem sækir áhrif til bláberjalyngs. Kristín Ísleifsdóttir sýnir Birki, Ólöf Erla Bjarnadóttir sýnir Fífil og Sigríður Erla Guðmundsdóttir sýnir Hrút sem sækir áhrif til hrútaberja. Hugmynda- og hönnunarvinna var sameiginleg en Sigríður Erla hefur þróað fljótandi leirmassa úr leirnum frá Ytri-Fagradal, sem bollarnir eru framleiddir úr. Hildigunnur Gunnarsdóttir er hönnuður umbúða á tebollunum.

Tebollarnir verða sýndir og kynntir ásamt sérblönduðu tei úr þeim fjórum jurtum sem sýndar eru á bollunum. Teið sem kynnt er undir nafninu Fagradalste er framleitt af Þóru Þórisdóttur myndlistarmanni sem rekur sprotafyrirtækið urta.islandica.

Allir velkomnir.