Tíu ár liðin frá sögufrægum tónleikum

Á morgun, sunnudaginn 25. ágúst, eru liðin tíu ár frá því hljómsveitin Foo Fighters hitti hljómsveitina NilFisk í Samkomuhúsinu Gimli á Stokkseyri og tóku lagið saman.

Daginn eftir fór NilFisk með Foo Fighters á sviðið í Laugardalshöll og lék fyrir 6.000 manns.
Þessa verður minnst í tali, tónum og kvikmyndum á morgun, sunnudag, kl. 17:00 á hátíðartónleikum hljómsveitarinnar Kiriyama Family í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka.
Það er Menningarráð Hrútavinafélagsins Örvars sem stendur fyrir samkomunni. Samstarfsaðilar eru; Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps hins forna sem fagnar 125 ára afmælinu í ár með þessu. Einnig Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri sem setur punktinn aftan við afmælishald vegna 160 ára afmælis skólans á síðasta skólaári með aðkomu sinni að tónleikunum nú.
Hljómsveitina NilFisk skipuðu fimm drengir úr Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri; Eyrbekkingarnir Jóhann Vignir Vilbergsson og Víðir Björnsson og Stokkseyringarnir Sveinn Ásgeir Jónsson, Sigurjón Dan Vilhjálmsson og Karl Magnús Bjarnarson. NilFisk starfaði í nákvæmlega fimm ár; frá 10. mars 2003 til 10. mars 2008. Þeir léku á ferlinum á um allt land og fóru tónleikaferðir til Danmerkur. Samstarf NilFisk og Foo Fighters í Laugardalshöll í ágúst 2003 og síðan aftur þann 4. júlí 2005 á Draugabarnum á Stokkseyri eru merkileg og víðfræg atriði í poppsögu Íslands.
Á grunni NilFisk var síðan til hljómsveitin Kiriyama Family haustið 2008 en hana skipa, auk Jóhanns, Víðis og Karls, Selfyssingarnir Bassi Ólafsson og Guðmundur Geir Jónsson. Upphafið að hljómsveitinni var samkoma Hrútavina og Búnaðarfélags Stokkseyrarhrepps í Hafinu bláa í september 2008. Þá söng Karen Dröfn Hafþórsdóttir frá Eyrarbakka með hljómsveitinni og mætir hún til leiks að nýju með strákunum á tónleikunum á morgun þar sem upphafið verður rifjað upp.
Þetta eru fyrstu tónleikar Kiriyama Family við ströndina og er aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir með húsrúm leyfir.
Fyrri greinFjóla stóð sig vel í Belgíu
Næsta greinVerslunin allt of lítil fyrir sumarvertíðina