Tina Turner tekur Bonnie Tyler

Eftir frábæra tónleika á Sviðinu á Selfossi um síðustu helgi hafa strákarnir í Hr. Eydís safnað kröftum fyrir nýja upptöku. Og það er ekkert smá lag sem er þar á ferðinni; Tinu Turner lagið The Best, og fá þeir Bryndísi Ásmunds til liðs við sig við flutninginn.

Lagið er reyndar upprunalega með Bonnie Tyler en útgáfa hennar hefur algjörlega fallið í skuggann á ábreiðu Tinu Turner sem kom úr árið 1989.

Tina vildi samt gera smá breytingar á laginu. Henni fannst vanta eitthvað ris í lagið í lokin og vildi fá c-kafla og upphækkun. Gítarsólóinu var svo skipt út fyrir saxófón sem átti sitt blómaskeið í popptónlist um þetta leyti. Þessi kokteill, ásamt söngrödd Tinu, sló algjörlega í gegn og lagið er í raun samofið nafni Tinu Turner. Það er algengur misskilningur að lagið heiti Simply The Best, en það heitir The Best …einfaldlega.

„Þetta er náttúrulega alveg geggjað lag sem einhvernveginn er alltaf jafn vinsælt,“ segir Örlygur Smári gítarleikari og söngvari Hr. Eydís og bætir við að það „skipti ekki máli í hvaða samhengi þetta er spilað, það fara allir alltaf að syngja með laginu.“

Bryndís á Sviðinu í nóvember
Bryndís sem er bæði söng – og leikkona hefur lengi verið áberandi í íslensku tónlistarlífi. Þekktust er hún fyrir túlkun sína á tónlist Amy Winehouse, Janice Joplin og Tinu Turner. Bryndís hefur leikið í fjölda sviðsuppsetninga, kvikmynda og sjónvarpsþátta auk þess að troða upp á sýningum, tónleikum og skemmtunum um land allt. Þess má geta að Bryndís verður með Tina Turner tónleikasýningu 18. nóvember á nýja flotta tónleikastaðnum á Selfossi, Sviðinu, fyrir þau ykkar sem vilja meira. Síðast seldist upp!

Rás Hr. Eydís á Youtube

Hr. Eydís á Instagram

Hr. Eydís á Facebook

Fyrri greinJökullinn skríður fram í fyrsta sinn í 14 ár
Næsta greinKonur fá ekki að fara í sund á þriðjudaginn