Tína gefur út mynsturbók

Christine Einarsson á Selfossi hefur gefið út fyrstu bókina í nýrri bókaseríu er nefnist „Litlu munsturbækurnar hennar Tínu“.

Áður hefur hún gefið út handbókina Geymt en ekki gleymt, sem var afar vel tekið og hefur reynst hið mesta þarfaþing fyrir prjónara landsins.

Þessar nýju bækur munu geyma safn fjölbreyttra prjónamynstra jafnt fyrir byrjendur sem lengra komna, sem nota má til að prjóna hvers konar flíkur og prjónaverkefni. Fyrirhugað er að gefa út nýja bók fjórum sinnum á ári, næstu tvær bækur eru þegar í vinnslu og verða munstrin í þeim mjög ólík.

Vandað var til verka í hvívetna og til að mynda var pappírinn í bókinni valinn með endingu í huga svo þær muni þola mikla notkun og hnjask. Munstrin í nýju bókinni eru bæði rituð og teiknuð til að auðvelda prjónaskapinn. Skýringar á bæði skammstöfunum sem og táknum eru á sér spjaldi sem er laust og einfaldar því allt til muna.

Christine, eða Tína eins og hún er jafnan kölluð, er konan á bak við hina geysivinsælu Prjónasmiðju Tínu sem finna má bæði á vefsíðunni www.hananu.is og á Facebook. Hún hefur sérhæft sig í prjónavísindum, veitir ráðgjöf og heldur námskeið ásamt því að skrifa vinsæla pistla um allt sem viðkemur prjónaskap.

Nýja bókin er aðeins fáanleg á www.hananu.is til að halda verði hennar sem lægstu.

Fyrri greinHamar steinlá í Hólminum
Næsta greinSelfoss tapaði stórt gegn Stjörnunni