Þýskur upplestur á Brimrót

Það verður þýsk stemming á Brimrót á Stokkseyri á þriðjudagskvöldið kl. 20 þar sem Susanne Braun mun lesa uppúr bók sinni Die Insel der Wilde Traume. Útgefandi hennar í Þýskalandi, Alexander Schwarz, mun einnig lesa uppúr sinni bók um íslensk ævintýri, Marchen aus Island.

Á undan upplestrunum verður Pétur Már Guðmundsson með stutta kynningu á starfsemi Brimrótar. Léttar veitingar í boði.

Bók Susanna Braun, dýralæknis sem búsett er á Stokkseyri, fjallar um líf hennar á Íslandi. Hvað varð til þess að hún kom til landsins, hvernig það kom til að hún lenti svo á Stokkseyri og hvernig dvölin hefur verið. Hvernig upplifir hún Ísland? Margt hefur sannarlega á daga hennar drifið síðan hún flutti til landsins og eru ýmis ævintýri rakin í bókinni. Meginstef bókarinnar er þó starf hennar sem dýralæknir á Íslandi og íslenski hesturinn.

Alexander Schwarz starfar hjá útgáfunni Eden Books í Þýskalandi og færði sögur Susanne til bókar og gaf út. Sjálfur hefur hann heimsótt landið oft og skrifaði bókina Marchen aus Island um íslensk ævintýri sem hann mun lesa uppúr á þriðjudagskvöldið.

Brimrót á Stokkseyri er menningarsmiðja sem hóf starfsemi í nóvember 2019. Það er staðsett á efri hæð félagsheimilisins Gimli og þar hafa listamenn, kukl-fræðimenn og bóksali aðsetur. Auk þess að bjóða gestum stöku sinni upp á kaffi eru haldnir þar viðburðir af ýmsu tagi, sýningar, námskeið, fundarhöld, tónleikar og upplestrar.

Fyrri greinLaufey nýr formaður FKA á Suðurlandi
Næsta greinGul viðvörun: Suðvestan stormur