Þrjár flugeldasýningar í dag

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sunnlenskir flugeldaáhugamenn fá mikið fyrir sinn snúð þar sem verið er að stilla upp þremur glæsilegum flugeldasýningum á Suðurlandi.

Sú fyrsta verður á Gaddstaðaflötum við Hellu klukkan 17 í umsjón Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu. Skotið verður upp af malkbikaða planinu og geta bílar lagt þar fyrir neðan. Ekki er hægt að keyra að Rangárhöllinni þar sem vegurinn er lokaður vegna framkvæmda.

Klukkan 20:00 verða jólin kvödd á Selfossi með glæsilegri flugeldasýningu á Fjallinu eina við íþróttavöllinn. Það er Ungmennafélag Selfoss sem býður upp á sýninguna í góðu samstarfi við Sveitarfélagið Árborg og Björgunarfélag Árborgar. Þar sem flugeldasýningarnar eiga að sjást vel á stóru svæði er gengið út frá að fólk njóti sýningarinnar heiman frá sér eða úr bílum sínum til að allra sóttvarna sé gætt.

Á Flúðum verður síðan flugeldasýning og „þrettándabrenna“ á tjaldsvæðinu klukkan 20:30 í umsjón Björgunarfélagsins Eyvindar. Vegna samkomutakmarkana er óskað eftir því að fólk horfi á úr fjarlægð og safnist ekki saman.

Fyrri greinNjarðvík fór uppfyrir Þórsara
Næsta greinÖlvaður ökumaður flúði af slysstað