Þríleikur Bjarna um Skálholt í einni kilju

Sagnabálkurinn Síðustu dagar Skálholts eftir Bjarna Harðarson er nú kominn út í einni kilju.

Bálkurinn spannar aldarlanga sögu Skálholtssveita. Frumgerð sögunnar kom út í þremur bókum, Í skugga drottins, Í Gullhreppum og Síðustu dagar Skálholts, á árabilinu 2017–2020. Sagan er hér sögð frá sjónarhóli fátækra landseta stólsins og lýsir kjörum þeirra og lífi.

Við sögu kemur fjölskrúðugt persónusafn, allt frá biskupum og fyrirmennum til kotafólks og soðbúrskerlinga. Einna fyrirferðarmest verður þó skringimennið síra Þórður í Reykjadal sem á sér þann draum að sjá Skálholtsstað brenna einu sinni enn en hefur ekki uppburði til að kveikja þá elda.

Móðuharðindi, jarðskjálftar og almenn ringulreið 18. aldar taka að lokum að sér að greiða staðnum náðarhöggið og í Sultartungum verður ekki annað eftir en þau strá sem eru aldrei nema strá.

Fyrri greinSkaftárhreppur hvetur til aukinnar útbreiðslu birkis
Næsta greinRekstrarreynsla frambjóðenda