Þriggja daga vakt framundan á Sviðinu

Til í slaginn Hanni, Gunnar Þór, Addi, Gunni Óla og Hebbi á æfingu á Selfossi í síðustu viku. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hljómsveitin Skítamórall kemur saman um hvítasunnuhelgina á tónleikastaðnum Sviðinu á Selfossi. Það dugar ekki eitt kvöld fyrir drengina heldur spila þeir á þrennum tónleikum frá föstudegi til sunnudags.

Sunnlenska.is kíkti á æfingu hjá hljómsveitinni í heimabænum í síðustu viku. Kunnuglegir tónar bárust út á götu í Gagnheiðinni en þetta er í fyrsta sinn í ein fimmtán ár sem hljómsveitin heldur æfingu á Selfossi.

„Það er framundan þriggja daga vakt á Sviðinu. Við erum mjög spenntir en það eru tvö ár síðan við komum saman síðast til að spila, einmitt hér á Kótelettunni,“ segir Arngrímur Fannar um leið og við tyllum okkur í sófann með Gunnar Óla.

„Við ætlum að spila bestu lögin okkar og gestir munu sitja við borð og hafa það huggulegt. Það má samt alveg syngja og tjútta með. Hugmyndin er bara að þetta verði létt og skemmtilegt,“ bætir Addi við.

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsöfnuð orka og spilaþörf
Gunnar segir að það sé spenningur í hópnum en þetta verður í fyrsta skipti sem Skítamórall kemur fram á Sviðinu.

„Við hlökkum alveg svakalega til, þetta er rosalega flott konsept og loksins kominn staður hérna á Suðurlandi til þess að halda flotta tónleika. Það var kominn tími á þetta og við erum mjög spenntir,“ segir Gunnar.

„Bandið er eiginlega búið að vera í tveggja ára dvala sökum anna. Okkur bauðst að fara fyrr á Sviðið en það hentaði ekki alveg og það var alveg kjörið tækifæri fyrir okkur núna að taka þessa helgi. Það veitir ekkert af þremur dögum, Selfoss hefur stækkað svo mikið og svo eru svo margir í sumarbústöðunum hérna í kring. Það er uppsöfnuð orka hjá okkur og spilaþörfin mikil eftir smá stopp,“ bætir Gunnar við.

En er ekkert álag á „miðaldra“ poppstjörnur að keyra heila tónleika þrjú kvöld í röð?

„Það á eftir að koma í ljós,“ segir Addi og hlær. „Við tókum stundum fimm, sex kvöld í röð hérna í denn. En það sem er breytt núna er að þetta er á kristilegum tíma. Við stígum á svið klukkan níu og erum sennilega að slá lokatóninn á miðnætti, frekar en að starta ballinu þá eins og áður. En nei, ég hef ekki áhyggjur af því. Við erum að æfa stíft og ætlum að vera léttir á því. Við ætlum meira að segja að spila fyrsta lagið sem við hljóðrituðum í Stúdíó Glóru hjá Labba á sínum tíma. En ég ætla ekki að segja hvað það er, fólk verður bara að mæta, það á eftir að koma óvart,“ segir Addi að lokum.

sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Skítamórall

Fyrri greinAdam tryggði KFR sigur – Stokkseyri tapaði
Næsta greinÞrjú rauð á loft á Selfossvelli