Þriðja lagið af væntanlegri plötu Moskvít

Hljómsveitin Moskvít. Ljósmynd/Aðsend

Sunnlenska hljómsveitin Moskvít sendi frá sér nýtt lag á dögunum, sem er það þriðja af væntanlegri plötu hljómsveitarinnar.

Lagið nefnist Easy Coming og er það þegar farið að hljóma á öldum ljósvakans, auk þess sem það er að finna á helstu streymisveitum.

Félagarnir í Moskvít segja að lagið Easy Coming fjalli um minningarnar sem safnast og gera manni kleift að ferðast aftur í tímann. „Ævintýri, bæði gömul og ný, móta þig sem einstakling. Erfiði og óhöpp verða svo að góðum sögum sem verða aldrei af þér teknar,“ segir í tilkynningu frá hljómsveitinni.

Easy Coming er þriðja lagið sem hljómsveitin sendir frá sér af væntanlegri plötu. Platan heitir Human Error og er þema plata sem snertir á ýmsu, t.d siðfræði, heimspeki og menningu, sem er miðlað í gegnum raðmorðingja. Alls verða ellefu lög og eitt interlude á plötunni.

Hljómsveitin Moskvít hefur starfað í rúmlega eitt ár í núverandi mynd en hljómsveitina skipa þeir Sjonni Arndal, söngur og bassi, Alexander Örn Ingason, trommur og bakraddir, Jón Aron Lundberg, píanó og bakraddir og Valgarður Uni Arnarsson, gítar og bakraddir.

Fyrri greinPrófkjör hjá sjálfstæðismönnum í Suðurkjördæmi
Næsta greinMetstökk Evu Maríu tryggði henni gullið