Þriðja lagið af væntanlegri plötu Moskvít

Hljómsveitin Moskvít. Ljósmynd/Aðsend

Sunnlenska hljómsveitin Moskvít sendi frá sér nýtt lag á dögunum, sem er það þriðja af væntanlegri plötu hljómsveitarinnar.

Lagið nefnist Easy Coming og er það þegar farið að hljóma á öldum ljósvakans, auk þess sem það er að finna á helstu streymisveitum.

Félagarnir í Moskvít segja að lagið Easy Coming fjalli um minningarnar sem safnast og gera manni kleift að ferðast aftur í tímann. „Ævintýri, bæði gömul og ný, móta þig sem einstakling. Erfiði og óhöpp verða svo að góðum sögum sem verða aldrei af þér teknar,“ segir í tilkynningu frá hljómsveitinni.

Easy Coming er þriðja lagið sem hljómsveitin sendir frá sér af væntanlegri plötu. Platan heitir Human Error og er þema plata sem snertir á ýmsu, t.d siðfræði, heimspeki og menningu, sem er miðlað í gegnum raðmorðingja. Alls verða ellefu lög og eitt interlude á plötunni.

Hljómsveitin Moskvít hefur starfað í rúmlega eitt ár í núverandi mynd en hljómsveitina skipa þeir Sjonni Arndal, söngur og bassi, Alexander Örn Ingason, trommur og bakraddir, Jón Aron Lundberg, píanó og bakraddir og Valgarður Uni Arnarsson, gítar og bakraddir.