Þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar

Guðrún Arndís Tryggvadóttir. Mynd úr safni. Ljósmynd/Aðsend

Guðrún Arndís Tryggvadóttir, listakona á Selfossi, er höfundur bókarinnar LÍFSVERK – Þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar. Guðrún mun hún standa fyrir útgáfuhátíð í Skálholti í samstarfi við staðinn þann 14. desember kl. 14.

Bókin er gefin út samhliða sýningu Guðrúnar í Hallgrímskirkju í Reykjavík, sem opnar þann 1. desember næstkomandi og stendur til 1. mars.

Í þessari litríku og heillandi bók leitar Guðrún Arndís að lífsverki forföður síns, Ámunda Jónssonar, smiðs, listmálara og bíldskera á 18. öld. Hún endurskapar ævi hans og iðju í vatnslitamyndum í því skyni að nálgast fortíðina og lætur innsæinu eftir að kalla fram svör – í myndverkum og textum til íhugunar.

Í bókinni eru ljósmyndir af öllum þekktum verkum Ámunda auk fræðigreina eftir Arndísi S. Árnadóttur og Sólveigu Jónsdóttur sem ætlað er að auðga þessa sögu, ljá henni líf og styrkja sambandið við líf og list fortíðar. Með allt þetta í höndum er það síðan verkefni áhorfandans og lesandans að spegla sinn eigin reynsluheim í því sem hér er borið fram.

„Ég vil spegla nútímann í fornum veruleika í von um skilning á eigin tilveru,“ segir Guðrún  um ferðalag sitt til fortíðar. Með þeim orðum hvetur hún okkur til íhugunar um það hvernig umhverfi, uppruni og reynsla móta menn, letja eða hvetja á hverri tíð, og hvernig fjarlægðin milli okkar og Ámunda Jónssonar í árum og öldum býður okkur að skynja raunverulegt virði þess sem eitt sinn var.

Sýning myndverka Guðrúnar úr bókinni verður í Skálholti og mun standa þar opin fram til loka janúar en opið er í Skálholtsskóla alla daga.

Fyrri greinÓhemju gott dýpi í Landeyjahöfn
Næsta greinSmíða skartgripi úr gamalli mynt