Þór sendir frá sér nýja ljóðabók

Þór með nýju bókina heima í stofu á Eyrarbakka en hann hefur aðallega búið á Bakkanum undanfarin tíu ár. Ljósmynd/Aðsend

Út er komin ný ljóðabók eftir Þór Stefánsson, ljóðskáld og þýðanda á Eyrarbakka. Þetta er
nítjánda frumsamda ljóðabók Þórs en hann hefur einnig sent frá sér svipaðan fjölda bóka með ljóðaþýðingum, aðallega úr frönsku.

Bækur Þórs hafa komið út á arabísku, dönsku, ensku, frönsku og japönsku en sýnishorn ljóða hans hafa verið þýdd á fjórða tug tungumála.

Nýja bókin heitir Stöður og skiptist hún í fjóra kafla þar sem höfundur tekur stöðuna á Manninum, Ljóðinu, Ástinni og Jörðinni. Sigurður Þórir sér um útlit bókarinnar og teiknar myndir með kaflaheitum.

Þór hefur aðallega haldið til á Eyrarbakka síðastliðin 10 ár og lesið ljóð sín upp við ýmis tækifæri meðal annars á Bakkastofu, í Húsinu á Eyrarbakka og í Bókakaffinu á Selfossi en í Bókakaffinu er nýja bókin meðal annars til sölu.

Kápa ljóðabókarinnar Stöður.
Fyrri greinLeitað að ökumanni sem ók á barn
Næsta greinÞegar Steingrímur Hermannsson „varð ljóslaus“