Þögla barnið komin í kilju

Sakamálasagan Þögla barnið eftir Guðmund Brynjólfsson á Eyrarbakka er komin út í kilju en bókin hlaut afbragðs viðtökur lesenda og gagnrýnenda fyrir síðustu jól.

Sagan er sjálfstætt framhald Eitraða barnsins sem út kom í 2018.

Laust fyrir aldamótin 1900 er maður drepinn á Vatnsleysuströnd. Líkið er hræðilega útleikið. En þótt Strandaringar láti sem þeir viti allt um morð þetta er enginn handtekinn. Engar sannanir liggja fyrir en heimamönnum stendur á sama.

Yfirvöld úti í kóngsins Kaupmannahöfn heimta rannsókn. Eyjólfur Jónsson sýslumaður Árnesinga og rannsóknardómari í þessu einstaka máli fær inni í Landakoti á Vatnsleysuströnd og hefur eiginkonu sína, valkyrjuna Önnu Bjarna­dóttur, með sér til halds og trausts. Smám saman fara þeim hjónum að birtast þegjandalegir draugar þessarar harðbalalegu sveitar þar sem menn eru drepnir, ekki bara einu sinni heldur jafnvel oft.

Saga Eyjólfs sýslumanns fléttast saman við atburði í Lundúnum þar sem sýsluskrifarinn Kár Ketilsson þvælist um og lætur ekkert gott af sér leiða. Yfir og allt um kring er óslökkvandi brennivínsþorsti, breyskleiki fátækra manna og ást á réttlæti smælingjanna.

Útgefandi er bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi.

Fyrri greinViðbúnaður dýraeigenda vegna náttúruhamfara
Næsta greinIngvar gaf Rashford föðurleg ráð