Það verður Þjóðhátíðarstemning í miðbæ Selfoss næstkomandi sunnudagskvöld en þá verður dagskrá Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum sýnd á risaskjá. Hápunktur kvöldsins verður brekkusöngurinn með Magnúsi Kjartani.
„Þetta er í þriðja sinn sem boðið er upp á tröppusöng í miðbænum. Stemningin síðustu ár hefur verið algjörlega stórkostleg og ég á ekki von á öðru en að hún verði eins á sunnudaginn,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, markaðsstjóri miðbæjarins í samtali við sunnlenska.is.
„Við hvetjum bæjarbúa og gesti til að fjölmenna í tröppusönginn á Brúartorgi og taka undir með brekkunni í Eyjum. Að sjálfsögðu verður opið á veitingastöðum og börum fram eftir kvöldi, markísur dregnar út og kveikt á hiturum,“ bætir Davíð við.
Dagskrá Þjóðhátíðar verður á skjánum frá kl. 20:00 en sjálfur brekkusöngurinn hefst kl. 23:00 þar sem Selfyssingurinn Magnús Kjartan mun halda uppi fjörinu.

