„Þetta verður mjög skemmtilegt dæmi“

Tónlistarmaðurinn KK mun á næstunni halda þrenna tónleika víðsvegar um Suðurland. Tónleikarnir eru hluti af vortónleikaröð KK þar sem hann ferðast um landið ásamt hljómsveit sinni.

Fyrstu tónleikarnir á Suðurlandsundirlendinu verða á Hendur í höfn í Þorlákshöfn þann 30. mars næstkomandi. Einnig mun hann halda tónleika í Skyrgerðinni í Hveragerði og Midgard á Hvolsvelli.

„Ég hef ekki verið að spila mikið með hljómsveit undanfarið, aðallega spilað einn með kassagítarinn. Mörg lögin eru þannig að þau þurfa hljómsveit og raddir til að blómstra og mér fannst ég hafa vanrækt lögin,“ segir Kristján Kristjánsson, betur þekktur sem KK, í samtali við sunnlenska.is.

„Ég hafði samband við Eyþór Gunnars hljómborðsleikara og Guðmund Péturs gítarleikara og bar þetta undir þá. Þeir tóku mjög vel í þetta og hvöttu mig til dáða. Kiddi Snær (trommur) bættist í hópinn og áður var ég búinn að tala við son minn Sölva um að spila á bassa. Síðan fór ég að athuga með staði.“

Alþýðlegir staðir
KK segir tónleikastaðina vera valda af kostgæfni. „Palli Eyjólfs, sem er Eyjapeyi og rekur Bæjarbíó og Alþýðuhúsið í Eyjum, hafði bókað mig á báðum stöðunum fyrir ári síðan. Ég hafði samband við Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur frá Þorlákshöfn og bað hana um að bóka í kringum Bæjarbíó og Alþýðuhúsið í Eyjum. Hún er með puttann á púlsinum þegar kemur að Suðurlandinu. Hendur í höfn í Þorlákshöfn lá nokkuð beint við, svo bætti hún við Skyrgerðinni í Hveragerði og Miðgarði á Hvolsvelli. Staðirnir eiga það kannski sameiginlegt að vera alþýðlegir, þeir eru frekar litlir, taka frá 80 til 250 manns. Þetta eru staðir sem eru reknir af fólki með mikla ástríðu.“

Á eftir að koma fólki skemmtilega á óvart
Aðspurður hvort hann eigi uppáhalds lög á prógramminu segir KK að það sé erfitt að gera upp á milli laganna. „Það hefur verið svolítið erfitt að velja og hafna lögum, því þau eru svo mörg! Við verðum með lög sem fólk þekkir, og einnig lög sem hafa ekki verið mikið í spilun. Ég held að við eigum eftir að koma fólki skemmtilega á óvart bæði með lagavalinu og einnig með spilagleðinni.“

„Þetta lítur út fyrir að eiga eftir að verða mjög skemmtilegt dæmi. Við erum alla vega svolítið uppveðraðir, við þurfum kannski að róa okkur aðeins,“ segir KK og hlær.

„Það er svo geggjað sánd með Wurlitzerinn og slide-inn, vá! Allt gamlir lampamagnarar sem við verðum með í litlum lókölum, þetta er eins og þetta á að vera.“

Dásamlegt að hafa börnin sín með sér
KK segir að hljómsveitin leggi mikla áherslu á að raddir. „Það er svo gaman hafa góðar raddir, það lyftir þessu öllu upp á æðra plan finnst mér. Eyþór Gunnars er mikill snillingur þegar kemur að röddunum bæði að útsetja og æfa þær. Hann ætlar að vera með Wurlitzer píanóið og rafmagnsorgel. Gummi Péturs, sá mikli gítargúrú, verður með rafmagnsgítara og slide gítarinn sem er unaður út af fyrir sig. Og Sölvi minn hefur spilað mikið með mér í gegnum tíðina, enda frábær bassaleikari og það er náttúrulega bara dásamlegt að geta haft börnin sín með sér.“

Nýtt lag á leiðinni
KK segir að hljómsveitin nái einstaklega vel saman. „Kristni Snæ Agnarsyni, trommuleikara, er ég að spila með í fyrsta skipti, þó ég sé búinn að þekkja hann í svolítinn tíma. Hann er ekki bara trommuleikari, heldur mikill músikant og næmur fyrir tónlistinni sem er ske og leggur línurnar og heldur stöðugleikanum. Það var meiriháttar að finna hvað við náðum vel saman á fyrstu æfingunni, við vorum allir í skýjunum. Og raddirnar! Wó! Ég prófaði nýtt lag með þeim sem sló í gegn hjá okkur öllum og við erum að fara í stúdíó í næstu viku að takaþað upp. Ég hlakka mikið til,“ segir KK glaður í bragði að lokum.

Hægt er að nálgast miða á tónleikana á midi.is

Fyrri greinHyggjast mæla gjánna með fjölgeislamælingu
Næsta greinBenedikt ráðinn þjálfari kvennalandsliðsins